Morðóðu systurnar í Freyvangi

Morðóðu systurnar, Marta til vinstri og Abbý til hægri og líkgrafarinn Teddi á milli þeirra
Morðóðu systurnar, Marta til vinstri og Abbý til hægri og líkgrafarinn Teddi á milli þeirra

Freyvangsleikhúsið hefur hafið sýningar enn eitt árið með öflugu og bráðfyndnu leikverki, Blúndur og blásýra, í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar og leikstjóri er Vala Fannell. Í stóru ættarhúsi Brewstster fjölskydunnar búa systurnar Abby (Inga María Ellertsdóttir) og Marta (Geirþrúður Gunnhildardóttir Gunnarsdóttir) ásamt bróðursyni sínum Teddi (Gunnar Möller), sem vægast sagt gengur ekki heill til skógar og telur sig vera Roosvelt Bandaríkjaforseta og í múnderingum eftir því.

Og blæs í herlúður einn mikinn á hvaða tíma sólarhrings sem er svo undan er kvartað í nágrenninu. Tveir aðrir bróðursynir systranna koma verulega við sögu en það eru Mortimer (Daði Freyr Þorgeirsson), sem býr rétt hjá og nýtur verulegrar gestrisni systranna og er unnusti Elínar Harper (Joanna Madsen) en þau eru að undirbúa brúðkaup, sem svo riðlast eitthvað í öllum hamaganginum. Þriðji bróðursonurinn kemur svo heim frá útlöndum með glæpaferil á bakinu en það er Jónatan (Jakob Róbertsson) og með honum í för er Dr. Einstein (Sjöfn Snorradóttir), sem er ekki öll þar sem hún er séð því hún hefur hjálpað til við glæpaverkin.

Ótaldir eru Rooney varðstjóri mikill vinur systranna (Guðjón Ólafsson) og lögregluþjónarnir O´Hara (Ragnar Bollason) og Brophý (Hjálmar Arinbjarnarson) en að lokum kemur við sögu aðkomumaðurinn Gibbs (Jón Gunnar Halldórsson), sem er að falast eftir leiguhúsnæði, en verður ekki af því. Mortimer kemur til skjalanna og fyrir misskilning, hendir honum út, sem verður Gibbs til happs því systurnar morðóðu, Abby og Marta, voru strax búnar að hugsa sér sem þrettánda líkið í kjallarann en þar voru nefnilega 12 lík fyrir, sem engan gat grunað að systurnar hefðu drepið allt þetta fólk á eitri og grafið í kjallaranum með dyggri aðstoð „Roosvelts forseta“, nefnilega Teddis.

Blúndur og Blásýra er eins og fyrr segir bráðfyndin og fjörug leiksýning þar sem leikarar allir standa sig með ágætum en á engan er hallað þó ég
segi að systurnar báðar Abbý og Marta fari á kostum enda eru þær meira og minna á sviðinu alla sýninguna og standa fyrir sínu. Mortimer, bróðursonur þeirra systra, er líka í eftirtektarverðu hlutverki en að mínum dómi má hann hægja örlítið á sér en stendur sig annars vel og yrði trúlega rólegri ef hann gæfi sér tíma til að drífa sig bara í hnapphelduna með Elínu Harper.

Að lokum vll ég benda fólki á sem ekki hefur séð þessa frábæru sýningu að skella sér í Freyvang núna í byrjun skammdegis þar sem margir eiga á
þeim tíma erfitt vegna þunglyndis, kulnunar já og jafnvel fæðingarþunglyndis.

Góða skemmtun.

-Hjörleifur Hallgríms

Nýjast