Lesandinn: Óskar Jóhannsson

Óskar Jóhannson er Lesandi vikunnar
Óskar Jóhannson er Lesandi vikunnar

Óskar Jóhannsson er Lesandi vikunnar. Hann er upprunalega frá Húsavík en býr nú í sveitasælu Aberdeenskíris í Skotlandi. Þar tekst hann á við framkvæmdastjórn lítils fyrirtækis sem hyggur á heimsyfirráð auk þess að vera virkur í samfélagsmálum, umhverfis- og náttúruvernd.
Bókalestur er fyrirferðamikill á heimili hans og húslestrar fastar uppákomur enda fór ekki svo að leitað yrði ráðgjafar yngsta bókaormsins á heimilin, Eyju Alexöndru, við verkefnið.

Uppáhalds bók eftir erlendan höfund?

Lesandinn 3

Ulysses eftir James Joyes. Ég þurfti að lesa hana 18 ára gamall í bókmenntafræði námi og þá þótti mér hún ólæsilegt torf. Ég gafst upp eftir fáar blaðsíður.

Fyrir 15 árum var ég staddur í safni skáldsins í Dublin. Þar var ég við það að koma mér í stórvandræði fyrir að skemma írskar þjóðargersamar, þegar ég henti fyrir slysni síma skáldsins í gólfið, kominn inn fyrir þar til gerðar „girðingar“ að halda frá stjórnlausum og ábyrgðarlausum safngestum. Þetta rétt slapp fyrir horn en í kjölfarið lofaði ég Joyce að ég myndi gera aðra tilraun við  Ulysses. Var auðvitað drullusmeykur um að af öðrum kosti yrði ég hundeltur og ofsóttur af vofu höfundarins fram á grafarbakkann.

Loks las ég hana í smá skömmtum og með „hjálparmeðulum“, kominn á fullorðins aldur. Það var opinberum sem leyddi til þessa að að við höfum átt samleið ítrekað síðan. Það er að segja ég og bókin....ekki vofan.

Uppáhalds bók eftir íslenskan höfund?

Lesandinn 3

Ég hef alltaf haft gaman af Þórbergi. Einungis vegna þess hversu oft í gegnum tíðina ég hef dregið hana út úr bókaskápnum til að grípa niður í henni yfir kaffibolla þá nefni ég Bréf til Láru. Ekki besta bókin og að einhverju leyti hefur tengingin við hana trosnað með tímanum en ennþá kemur hún fyrst upp í hugann.

Fyndnasta bókin?

Lesandinn 3

Ég las bækur Kristínar Helgu Gunnarsdóttur fyrir yngstu dóttur mína og við hlógum eins og hálfvitar. Það var svo gaman að einhvern veginn teygðist úr lestrarstundinni okkar yfir skynsamleg mörk án þess að við tækum eftir því. Stundum bað hún mig um að bakka í textanum og lesa aftur.

Vorum við að lesa Elsku besta Binna mín þegar kátínan var mest eða vorum við komin yfir í eitthvað um hana Fíusól, það munum við feðginin ekki alveg. En alla vega kom Fíasól geysilega sterk inn og hvorugt okkar hefur hlegið jafn mikið yfir nokkrum bókum síðan.

Sorglegasta bókin?  

Lesandinn 3     

Ég var ungur (kannski full ungur) þegar ég las Saga af sönnum manni eftir rússann Boris Polevoi, í íslenskri þýðingu Jóhannesar úr Kötlum (að mig minnir). Það situr í mér hvað mér fannst hún sorgleg og átakanleg. En hún var líka falleg og áhrifamikil. Alla vega, þá koma óvenju tárvot augu, snörl og vasaklútar upp í hugann.

Besta spennu/hrollvekju bókin?

Lesandinn 3

Eftir að hafa haft fordóma gagnvart Stephen King lét ég tilleiðast fyrir áhrif landsþekkts ljóts hálfvita, Þorgeirs Tryggvasonar og gaf honum séns. King er nú reglulega á leslistanum og The Stand stendur upp úr hingað til.

Besta barnabókin?

Lesandinn 3

Hér ráðfærði ég mig aftur við dóttur mína. Sameiginleg niðurstaða er Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason. Skemmtileg bók með hollan boðskap.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Lesandinn 3

Af mörgu að taka en fyrst kemur upp í hugann bókin Silent Spring eftir Rachel Carson. Þarna var sáð fræum ástríðu minnar fyrir umhverfis- og náttúruvernd.

Hvað ertu að lesa núna?

Lesandinn 3

Ég er venjulega með nokkrar ólíkar bækur (skáldskap, ljóð og fróðleik) í gangi einu sem ég stafla á náttborðið. Þessa dagana fer mestur tíminn í einn minn uppáhalds höfund, Iain Banks og bók hans, Whit.

Ef þú myndir skrifa bók, hvernig bók yrði það?

Ég er ekki viss um nema að þessu sé að einhverju leyti svarað. Hvort það svar verður einhvern tímann opinberað er svo annað mál.

Nýjast