20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Leikskólinn Grænuvellir fékk góðar gjafir
Í dag mánudaginn 6. febrúar er dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í tíunda sinn, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti og þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið.
Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.
Blaðamaður Vikudags.is leit við á leikskólanum Grænuvöllum á Húsavík í morgun en þá voru börn að leika sér með falleg tréleikföng sem þeim hafði verið færð að gjöf.
„Við fengum frábæra heimsókn rétt í þessu. Það var hann Hermann Ragnarsson. Hann hafði samband við okkur um daginn en hann hefur verið að dunda sér við að smíða leikföng úr tré og langaði til að gefa okkur gjafir. Hann kom svo í dag og færði okkur þessar flottu gjafir; stóra kassabíla, þyrlur og minni bíla sem eru virkilega vel gerðir,“ segir Helga Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri leikskólans Grænuvalla.
Hún sagði að leikskólinn væri sífellt að verða stærri og mikilvægari þáttur í samfélaginu og það væri þess vegna sönn ánægja að opna dyrnar fyrir almenningi og gefa fólki kost á því að labba í gegn og kynna sér það stórbrotna starf sem þar fer fram. „Við lítum svo á að þetta sé dagur okkar allra,“ segir hún.