Klassíkin í fyrirrúmi

Kristinn Árnason
Kristinn Árnason

Gítarleikarinn Kristinn Árnason heldur tónleika í Ketilhúsinu í Listagilinu á laugardaginn kemur. Tónleikarnir hefjast klukkan 16. Á efnisskránni eru verk eftir G.Sanz, J.S.Bach, M.Ravel, I.Albeniz og A.Barrios.

Kristinn hóf gítarnám tíu ára gamall hjá Gunnari H. Jónssyni og lauk burtfararprófi frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar árið 1983. Hann stundaði framhaldsnám í Englandi, á Spáni þar sem hann dvaldi í tvo vetur og í New York þar sem hann lauk prófi frá Manhattan School of Music árið 1987. Kristinn tók þátt í síðasta námsskeiði sem  Andres Segovia hélt áríð 1987.

Eftir námslok hefur Kristinn haldið fjölda tónleika hér á landi sem og erlendis, einn og sem þátttakandi í kammertónlist af ýmsu tagi. Hann hefur haldið einleikstónleika m.a. í Wigmore hall í Lundúnum, Kammerzaal Concertgebouw í Amsterdam, Munch safninu í Oslo auk tónleika á Ítalíu, Spáni, Danmörku og Bandaríkjunum.

Sex diskar með gítareinleik hans hafa komið út auk annarra diska. Diskur hans með verkum eftir Sor og Ponce hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin árið 1997 í flokki klassískra hljómdiska en hann hefur að auki verið tilnefndur fimm sinnum til sömu verðlauna. Kristinn hlaut verðlaun úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns árið 2007 og hann hefur verið tilnefndur til menningarverðlauna DV.

 

Nýjast