20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hlátur-flog í klukkutíma
Leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík, Píramus og Þispa frumsýndi í gær, föstudag glænýja uppfærslu á leikverkinu „Þú ert í blóma lífsins, fíflið þitt!“ í leikstjórn Jóhanns Kristins Gunnarssonar. Verkið skrifaði Davíð Þór Jónsson, fyrrverandi Radíusbróðir og núverandi séra í Laugarneskirkju, í samvinnu við unglingadeild Leikfélags Hafnafjarðar í upphafi tíunda áratugarins.
Ég skellti mér á frumsýninguna fyrir hönd Vikudags.is og áður en lengra er haldið í þessum pistli vil ég strax taka það fram að þessu mæli ég með fyrir alla, unga sem aldna, alveg eindregið. Nema kannski fyrir þá sem eru lélegir í þindinni, því í þessu leikhúsi verður hlegið – og hlegið mikið.
Í verkinu fylgjum við aðalpersónunni, Lillu á einskonar hraðspóli í gegnum uppvaxtarár hennar allt frá því hún er sáðfruma þar til hún útskrifast úr menntaskóla. Lilla er dæmigert vísitölubarn úr dæmigerðri vísitölufjölskyldu. Hún er saklaus og heiðarleg, en sker sig úr að því leyti að hún spyr spurninga sem aðrir láta sér duga að hugsa. Ekki eru hinir fullorðnu alltaf jafn hrifnir af því að verið sé að spyrja óþægilegra spurninga, enda eiga krakkar og unglingar helst af öllu að þegja og gera eins og þeim er sagt.
Radíus-húmorinn nýtur sín
Ég var á sínum tíma mikill aðdáandi Radíusbræðra (sérstaklega Davíðs Þórs, höfundar verksins) sem létu að sér kveða á 10. áratugnum og færðu íslenskt grín upp á nýtt level. Það sem einkenndi Davíð Þór á þessum árum var kaldhæðnin í hverjum andardrætti hans. Verkið ber þess líka merki, það er kaldhæðni og ádeila í hverri senu. Hér er deilt á hið íslenska fjölskyldulíf, tvískinnungur hinna fullorðnu miskunnarlaust dreginn fram. Deilt er á menntakerfið og raunar samfélagið allt sem virðist hafa það hlutverk eitt að steypa alla einstaklinga sína í sama mótið.
Það má því líklega færa rök fyrir því að verkið sé saga af uppreisn unglinganna gegn hinum fullorðnu, uppreisn nýrra kynslóða gegn gömlum gildum og hefðum. Verkið eldist vel, það á jafn mikið erindi í dag og það gerði fyrir drjúgum 25 árum. Nýjar kynslóðir munu nefnilega aldrei láta hinar eldri segja sér of mikið fyrir verkum.
Það er farið hratt yfir sögu, hlaupið er yfir lífshlaup unglings á rúmum klukkutíma. Sýningin er fyrir vikið afar hröð. Sviðsmyndin sem er hrá og einföld virkar fullkomlega við að halda uppi þessum hraða og það er aldrei dauður punktur. Ef þú ert ekki með öllu sneyddur skopskyni, þá ert þú að fara hlæja stanslaust í klukkutíma, hjá því verður ekki komist.
Vel að verki staðið
Það eru um 30 manns sem koma að sýningunni og er óhætt að hrósa þeim fyrir frábærlega unnið verkefni. Nokkru færri eða 20 manns stíga á svið í litlum og stórum rullum. Æfingar hafa greinilega skilað sér undir traustri leikstjórn Jóhanns Kristins, því ekki varð ég var við hnökra af neinu tagi eins og algengt er á frumsýningum.
Leikarar stóðu sig allir vel og uxu ásmegin eftir því sem leið á sýninguna. En eins og oft vill verða voru það burðarhlutverkin sem stálu athygli minni. Þar má nefna Ófeig Óskar Stefánsson sem leikur pabba Lillu. Hann bregður sér reyndar í fleiri hlutverk og gerir það fullkomlega áreynslulaust. Hér er greinilega náttúru talent á ferðinni sem á eftir að ná langt í leiklistinni ef hann yfir höfuð ætlar sér það. Hann virðist ekki þurfa að hafa fyrir því að koma manni til að hlæja, og verður að axla nokkuð af ábyrgðinni á strengjunum kviðsvæðis á undirrituðum. Í einni senunni brá Ófeigur sér í hlutverk stranga þýskukennarans. Fyrir mér persónulega var það hápunktur sýningarinnar. Sem betur fer fyrir mig var senan ekki lengri, því hún var sársaukafull, ég hló blóði og engdist um. Ég meira að segja gaf deitinu mínu öflugt olnbogaskot í vinstra beikonið í hláturflogunum.
Kristný Ósk Geirsdóttir fer með aðalhlutverkið og túlkar Lillu á meistaralegan hátt. Það var ótrúlega gaman að sjá hvað sjálfstraustið jókst hjá henni með hverri mínútunni og að öðrum leikurum ólöstuðum fannst mér Kristný Ósk sýna mesta innlifun í leik sínum. Það var unun að fylgjast með. Þarna er á ferðinni mikill töffari og stjarna „in the making“, ég hef sjaldan verið jafn viss um nokkuð á ævinni.
Huginn Ágústsson fór með lítið en veigamikið hlutverk Guðs almáttugs og var vægast sagt stórkostlegur. Hann skomberaði um sviðið í baðslopp og baðhettu, já og að því er virtist með gamla jólasveinaskeggið hans Hafliða Jósteins; og „one linerarnir“ spýttust af honum eins og köttur upp úr vatni. Ég væri til í að sjá spin-off leikrit þar sem burðarhlutverkin væru guð og þýskukennarinn – hver tekur að sér að skrifa það?
Ég kemst hreinlega ekki hjá því heldur að minnast á Halldór Árna Þorgrímsson sem fer með hlutverk Guðmundar Thóroddsen, sem um tíma gerir sér dælt við Lillu. Halldór Árni sýnir afburðarleik og skilar hlutverki sínu af miklu öryggi og sannfæringu.
Mig langar auðvitað að nefna fleiri, enda af nógu að taka en þessi pistill er nú þegar orðinn of langur. Niðurstaðan er einföld, frábær sýning sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Húsavík er greinilega ekki hætt að gefa af sér hæfileikafólk í kippum og torfum.
Önnur sýning á „Þú ert í blóma lífsins, fíflið þitt!“ verður á sunnudagskvöld klukkan 20. Ég mæli eindregið með að fólk bíði ekki of lengi með að sjá þetta. Ég hef grun um að það eigi eftir að brjótast út slagsmál eftir miðum.
Til hamingju Píramus og Þispa og takk fyrir mig.
Fleiri myndir má skoða hér fyrir neðan.
-epe.