Hannes og Smári í Samkomuhúsinu

Hannes og Smári. Mynd: Grímur Bjarnason/ akureyri.is
Hannes og Smári. Mynd: Grímur Bjarnason/ akureyri.is

Næstu helgar sýna Leikfélag Akureyrar og Borgarleikhúsið leikritið Hannes og Smári í Samkomuhúsinu. Leikritið, sem er samstarfverkefni LA og Borgarleikhússins, var frumsýnt þann 7. október á Litla sviði Borgarleikhússins. Viðtökur áhorfenda hafa verið frábærar og miðarnir rokið út en sýningin hefur fengið afar góða dóma.

Dagný Kristjánsdóttir, gagnrýnandi Hugrásar - Vefrits Hugvísindasviðs HÍ skrifar: "Skemmst er frá að segja að áhorfendur grétu af hlátri og ég hef enga trú á öðru en að þessi sýning verði ákaflega vinsæl”. Guðrún Baldursdóttir, gagnrýnandi Víðsjár sagði: "Húmorinn er alls ráðandi - skemmtileg kvöldstund fyrir áhorfendur" og kollegi hennar Silja Aðalsteinsdóttir, gagnrýnandi TMM, sagði m.a: "Þetta er hressandi skemmtun."

Það eru leikkonurnar Halldóra Geirharðsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir sem leika titilhlutverkin og eru höfundar verksins. Auk þeirra leika Elma Stefanía Ágústsdóttir og Kolbeinn Orfeus Eiríksson í sýningunni. Leikstjóri og meðhöfundur er Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri LA.

Hannes og Smári verða tvær helgar í Samkomuhúsinu í nóvember. Þeir lofa "eldfjörugri kvöldstund með leiklist, ljóðum, bardagalist og frumsaminni, óútgefinni tónlist" svo vitnað sé í þá sjálfa. Félagarnir fara, að eigin sögn, með áhorfendur í "listrænan rússíbana, segja sögur um uppruna sinn, líf og áhrifavalda - þetta eru leiftrandi sögur, dramatískar og ágengar en um leið fyndnar."

Nýjast