Fagnaði 100 ára afmæli
„Það mætti halda að ég væri eitthvert stórmenni!", sagði Stefán Sigurðsson þegar Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri heimsótti hann á Öldrunarheimilið Hlíð á dögunum en þar hafði verið slegið upp veislu í tilefni 100 ára afmælis Stefáns.
Stefán fæddist 16. október 1919 í torfbænum Stóradal í Djúpadal í Eyjafirði en ári síðar flutti fjölskyldan í timburhús í Stóradal sem afi Stefáns, Stefán Jóhannesson smiður, hafði smíðað. Móðir Stefáns og systir létust úr berklum og árið 1934 flutti Stefán með föður sínum, móðurafa og móðursystur til Akureyrar. Þau settust að í Innbænum, nánar tiltekið í Aðalstræti 17, og þar bjó Stefán til 1956 þegar hann hafði kynnst danskri konu, Ane-Lise Helge Holm, og þau eignast saman tvíbura.
Saman fluttu þau í Þórunnarstræti 118 þar sem Stefán bjó í 60 ár eða þar til hann fór á Hlíð árið 2016. Ane-Lise lést fyrir 19 árum. Stefán og Ane-Lise eignuðust þrjár dætur; tvíburana Lilju og Helgu fæddar 1955, en Helga lést fyrr á þessu ári, og Sóldísi sem fæddist árið 1960.
Stefán starfaði alla sína tíð í verksmiðjunum á Gleráreyrum, lengst af sem verkstjóri á sníðadeild Skógerðar Iðunnar. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.