Bernskuheimilið mitt eftir Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum
Flóra Menningarhús í Sigurhæðum á Akureyri hefur hafið söfnun á Karolina Fund fyrir útgáfu á bókinni Bernskuheimilið mitt eftir Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum (1857-1933).
Árið 1906 fékk Ólöf birta grein í tímaritinu Eimreiðinni undir heitinu Bernskuheimilið mitt sem telst vera fyrsti sjálfsævisögulegi þáttur íslenskrar konu. Greinin vakti á sínum tíma mikla athygli. Það að kona fjalli opinberlega og opinskátt um líf sitt og fjölskyldu sinnar má kalla uppreisn á þessum tíma "þegar konur áttu að standa vörð um heiður fjölskyldunnar, meðal annars með þagmælsku um eigin hagi og með því að þegja alltaf um það sem fór úrskeiðis" (Raghneiður Richter, Íslenskar konur-ævisögur, s. 11). Verkið hefur aldrei verið gefið út á bók en nú verður bætt úr því. Hægt er að styðja verkefnið og kaupa bækur í forsölu hér: https://www.karolinafund.com/project/view/6459
Ólöf var um aldamótin 1900 meðal þekktari íslenskra rithöfunda og eitt helsta kvenskáld landsins. Markmiðið með útgáfunni er að miðla menningararfi Ólafar og einstöku framlagi hennar til lista, kvenréttinda og menningar á Íslandi og gera sérstöðu hennar sýnilegri og aðgengilegri almenningi. Óhætt er að fullyrða að Bernskuheimilið og að arfleifð Ólafar sé mikilvægur þáttur í bókmennta- og kvenréttindasögu Íslands. Ragnheiður Richter segir enn fremur að Bernskuheimilið mitt ætti að vera skyldulesning meðal íslenskra skólabarna (Íslenskar konur - ævisögur, bls. 619).
Mikilvægt er að verk Ólafar, sérstæð lífsleið og arfleifð falli ekki í gleymsku og sé miðlað áfram til almennings og komandi kynslóða. Til þess þarf að skapa nýjar og ferskar tengingar. Bernskuheimili Ólafar er mikilvæg innsýn inn í tilveru ungmennis fyrir um 150 árum og mjög gott framlag og “tæki” í samræðum við nemendur og komandi kynslóðir um réttindi fólks og tækifæri í lífinu - og að flest þau réttindi sem við tökum sem sjálfsögð og gefin í dag voru ekki alltaf til staðar.
Styrkur fékkst í vetur úr Menningar- og minningarsjóði kvenna hjá Kvenréttindafélagi Íslands til þess að standa straum að hluta kostnaðar við útgáfuna.
Þórgunnur Oddsdóttir, myndlistarkona, íslenskufræðingur og fjölmiðlakona ritar eftirmála í bókina og Rakel Hinriksdóttir, grafískur hönnuður, myndlistarkona, skáld og blaðamaður mun búa bókina til prentunar. Hlynur Hallsson myndlistarmaður er einnig hluti af útgáfuteyminu. Ritstjóri er Kristín Þóra Kjartansdóttir sagnfræðingur og staðarhaldari í Menningarhúsi í Sigurhæðum. Útgefandi er Flóra menningarhús og stefnt er á að bókin komi út þann 21. júní 2025.
Nánari upplýsingar veitir Kristín Þóra Kjartansdóttir í flora.akureyri@gmail.com og í síma 661 0207.
Frá þessu segir í tilkynningu frá útgefanda.