Hagfræðingurinn sem er heltekinn af hvölum
Christian Schmidt kemur frá Bremen í Norður-Þýskalandi og er menntaður hagfræðingur. Hann kom upphaflega til Íslands sem ferðamaður og heillaðist af landi og þjóð. Hann dvelur á Húsavík í um níu mánuði á ári og starfar hjá Norðursiglingu. Christian er Norðlendingur vikunnar. „Ég ákvað árið 2009 að sækja um sem sjálfboðaliði hjá Hvalasafninu á Húsavík af því að ég elska hvali,“ segir Christian en við störf sín átti hann erindi um borð í hvalaskoðunarbáta Norðursiglingar nánast daglega. Það varð til þess að honum var boðin vinna sem leiðsögumaður í hvalferðum fyrirtækisins.