„Ég fer inn í minn eiginn heim og þar líður mér vel“
Baldur Kristjánsson er Húsvíkingur sem er búsettur í Osló í Noregi. Hann vinnur á landslagsarkítektastofunni Trifolia sem hann er meðeigandi í. En í frítíma sínum sinnir hann köllun sinni sem er listin. Myndir hans eru draumkenndar teikningar og notast Baldur aðallega við blýant og þurrpastel. Baldur er kominn með barnabók á teikniborðið og er kominn í samstarf við nýja vefverslun sem heitir Vegglist.is og eru eftirprentanir eftir Baldur á leið á markað innan skamms. Vikublaðið ræddi við Baldur á dögunum. Baldur er borinn og barnfæddur Húsvíkingur og er með ástíðu fyrir sveitinni enda segist hann dreyma um það að verða hobby-sauðfjárbóndi í framtíðinni. Hann notar enda hvert tækifæri til þess að komast heim í sveitina og missir helst ekki af göngum og sauðburði ef hann er á landinu en hann er ættaður innan úr Öxarfirði. Baldur útskrifaðist með BA gráðu í Arkítektúr frá Listaháskóla Íslands árið 2008 en hann segir að það hafi alltaf verið draumur að fara eitthvað erlendis til að halda áfram námi. „Það var ekki boðið upp á Master í Listaháskólanum þannig að það var alltaf planið að fara eitthvað út,“ segir Baldur og bætir við hlæjandi: „Árið 2008 var reyndar ekkert sérstaklega gott fyrir arkítekta og enga vinnu að fá í þeim bransa. Ég hef alltaf haft mestan áhuga fyrir landslagsarkítektúr og langaði til að sérhæfa mig í því.“