13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
„Á jólunum eru allir börn“
Hjónin Benedikt Ingi Grétarsson og Ragnheiður Hreiðarsdóttir hafa rekið Jólagarðinn í Eyjafjarðarsveit í hartnær aldarfjórðung með aðstoð barna sinna. Því er sannarlega um fjölskyldufyrirtæki að ræða. Líkt og hjá öðrum hefur aðdragandi jóla verið öðruvísi en áður hjá þeim hjónum sem láta þó engan bilbug á sér finna; jólin koma hvað sem öllu líður. Vikublaðið setti sig í samband við jólahjónin og spjallaði við þau um Jólagarðinn og jólin. „Við erum að upplagi með notalega tengingu við jólin og bæði þeirrar gæfu aðnjótandi að bernskujólunum fylgdu engin óveðursský,“ segja þau þegar ég spyr hvort þau hjónin séu í jólaskapi allt árið um kring. „Okkar fyrstu kynni voru í aðdraganda jóla, margar skemmtilegar minningar frá þeim tíma og því sennilega frá því fyrsta dálítil jólabörn. Þannig að þegar þessi hátíð ljóss og friðar náði alveg undirtökum í okkar lífi vorum við meira en til í það. Það var auðvelt að kveikja á jólaskapinu og fyrstu tíu árin a.m.k. vakti minnsta lykt af greni og hangikjöti tilfinninguna á örskotsstund.“