ÆTLAR AÐ VERÐA BESTUR Á ÍSLANDI OG FINNA SITT PLÁSS Á STÓRA SVIÐINU
„Ég ætla einn daginn að verða bestur á Íslandi í pílu og finna mér mitt pláss á stóra sviðinu,“ segir Óskar Jónasson sem náð hefur góðum árangri í pílu. Hann hefur einungis æft og spilað í rúmt ár en engu að síður landað bæði Akureyrar- og Íslandsmeistaratitlum. Tekið þátt í tveimur mótum erlendis og stefnir á frekari þátttöku utan landssteina á næstu mánuðum gangi allt upp. Mikill áhugi er fyrir íþróttinni á Akureyri um þessar mundir, félagið það næst stærsta hér á landi með rúmlega 100 félaga. Aðstaðan er í gamla íþróttahúsinu við Laugargötu og er hún sprungin.