„Við eigum að vera stolt af okkar íþróttastarfi og eigum að viðhalda og reka þau mannvirki sem við eigum í dag með sóma“
Viðtalið sem hér birtist er annar hluti af tveimur. Fyrri hlutinn birtist í 19. Tölublaði Vikublaðsins
Jónas Halldór Friðriksson framkvæmdastjóri Völsungs ræðir hér stöðu íþróttamannvirkja á Húsavík við blaðamann Vikublaðsins. Hann segir sveitarfélagið geta gert mun betur í viðhaldi og uppbyggingu íþróttamannvirkja og ítrekar líkt og í fyrri hluta viðtalsins nauðsyn þess að sveitarfélagið Norðurþing móti sér stefnu til framtíðar í íþrótta- og æskulýðsmálum.
Sjá einnig: „Þarna erum við orðin eftirbátur margra annarra sveitarfélaga“
„Í slíkri stefnu er brýnt að sveitarfélagið setji það niður hvernig það ætlar að standa að viðhaldi mannvirkja, hvenær það á að fara fram og með hvaða hætti. Að sama skapi þarf að koma fram hvenær uppbygging íþróttamannvirkja á að fara fram,“ segir Jónas.
Aðspurður um hvort viðhaldi á íþróttamannvirkjum sé ábótavant á Húsavík segir Jónas að það fari ekki á milli mála og nefnir fyrst að gervigrasið á upphitaða PCC vellinum sé orðið lúið.
Aukin slysahætta
„Gervigrasið er komið á tíma og þarfnast skiptingar, það hefur vantað upp á viðhald þar. Ef við berum okkur saman við Reykjavík t.d. þá er verið að skipta um dúk á völlum þar á fimm ára fresti. Við notum gervigrasvellina mikið hér á Íslandi, eðlilega, þetta er eina aðstaðan sem við höfum yfir veturinn. Þegar þetta er notað 12 mánuði á ári þá slitnar mottan mikið. Við það eykst slysahætta og annað þegar gervigrasið er orðið lélegt,“ útskýrir Jónas og bætir við að iðkendur séu mikið til að kvarta um svipuð meiðsli.
„Þegar eldri krakkar og fullorðnir eru að æfa á slitnu gervigrasi, þá erum við að heyra mikið til sömu kvartanir, það eru meiðsli í kringum mjaðmasvæðið. Eina skýringin sem við höfum er gervigrasið, það er einfaldlega orðið hart og of þétt,“ segir hann en tekur fram að hann telji undirlagið vera nokkuð gott og það nægi að skipta um mottuna.
„Þetta er eina mannvirkið í skipulögðu íþróttastarfi á Húsavík sem er notað 12 mánuði á ári. Það er bagalegt að við hugsum ekki betur um það,“ segir Jónas og bendir á að vandamálið sé að hluta til að það sé ekki hugsað út í heilsársrekstur á svæðinu, líkt og með önnur íþróttamannvirki og svæði.
„Það er ekki verið að reka þetta eins og hér sé starfsemi 12 mánuði á ári. Því þarf að breyta. Við opnum ekki önnur íþróttamannvirki nema þar séu forstöðumenn eða umsjónaraðilar. Hvort sem við erum að tala um skíðasvæði eða sundlaug, við opnum þau ekki nema það sé starfsmaður að sjá um þau, allt daglegt amstur, þrif og annað. Því er ábótavant hér. Hér er ekki starfsmaður árið um kring.“
Jónas segir að snjóbræðslukerfið undir gervigrasvellinum hafi þjónað tilgangi sínum vel en hafi að vísu bilað síðasta vetur en það sé búið að skipta um dælu í því. „Heilt yfir held ég að snjóbræðslukerfið sé gott og það ryður snjónum af vellinum. Það sem að vantar og þekkist víðsvegar um landið er að vera með búnað til að ryðja völlinn. Við erum hér 12 mánuði á ári en auðvitað detta út dagar út af veðri. Við breytum því aldrei á Íslandi en það sem mér finnst bagalegt er að í nokkra daga eftir verstu veðrin, þá kemur oft besta veðrið yfir veturinn í samfloti og það er yfirleitt þessa daga sem það tekur snjóbræðslukerfið að bræða snjóinn af vellinum. Þá væri gott að geta rutt snjónum af vellinum svo við missum ekki þá góðu daga til íþróttaiðkunnar á vellinum. En mér skilst að það sé búið að fjárfesta í tönn sem vonandi verður komin í notkun fyrir næsta vetur,“ útskýrir Jónas.
Tveir gervigrasvellir í framtíðinni
Eins og staðan er í dag eru tveir knattspyrnuvellir á Húsavík. Gervigrasvöllurinn upphitaði og grasvöllur sem er aðalkeppnisvöllur Völsungs. Jónas lætur í veðri vaka að það sé ekki mikil rekstarhagkvæmni í því að halda úti grasvelli sem aðeins er hægt að nota í þrjá mánuði á ári. Hann segir að hægt væri að nota völlinn lengur ef ráðinn væri umsjónarmaður með svæðinu allt árið. Hann telur þó farsælast að setja gervigras á báða vellina. „Ég myndi halda að þegar við skiptum út grasinu á neðri vellinum þá fáum við gervigras á hann líka. Það væri að mínu mati framtíðin. Það er mikill munur að nota eitthvað mannvirki í 12 mánuði á ári eða þrjá mánuði eins og neðri völlinn. Ef við gerum ráð fyrir því að fara 1. júní niður á grasvöllinn, þá fara þar fram einhverjir 10-11 leikir yfir sumarið. Með starfsfólki allt árið um kring, þá væri hægt að fá völlinn klárann mun fyrr, eins og tilfellið er með grasvelli í Reykjavík. Ég segi ekki að það sé endilega raunhæft að hann gæti verið klár í apríl en ef við værum með fólk sem er að vinna í þessu þá væri örugglega hægt að hafa þennan völl tilbúinn mun fyrr. Við erum að reka þetta svæði of mikið á sumarstarfsfólki,“ segir hann.
Sagan breytist í takt við uppbyggingu
Það er óhætt að segja að saga Völsungs hafi þróast að verulegu leiti í takt við uppbyggingu þeirra íþróttamannvirkja sem byggð hafa verið á Húsavík í gegn um tíðina. „Það byrjar t.d. þegar salurinn í grunnskólanum kemur á sínum tíma, þá fer fólk að æfa handbolta og blak í meiri mæli en áður. Svo þegar sundlaugin kemur, þá fer fólk að æfa sund. Svo er ákveðin bylting þegar Íþróttahöllin er tekin í notkun 1987 og svo önnur bylting þegar við fórum að geta stundað fótbolta utandyra allt árið með tilkomu gervigrasvallarins. Íþróttasagan breytist mjög mikið með tilkomu þessara mannvirkja,“ segir Jónas og kallar eftir að viðhaldi þessara mannvirkja verði sinnt mun betur en nú er gert.
„Það vantar talsvert upp á viðhald á okkar íþróttamannvirkum og Íþróttahöllin er þar engin undantekning. Hún er náttúrlega bara eins og þegar hún var byggð,“ segir Jónas og bendir að áhorfendastúkan hafi fyrir mörgum árum síðan fengið þann dóm Vinnueftirlitsins að hún væri óásættanleg. „Henni þarf að skipta út fyrir nýja stúku og dúkurinn er upprunalegur á gólfinu. Fyrir iðkendur sem stunda þarna sínar íþróttir, þá yrði það mesta breytingin að fá nýtt gólfefni, það er gefið mál. Þetta tilheyrir viðhaldi á húsinu og því er ábótavant. Það þarf að koma fram í stefnu sveitarfélagsins um íþrótta og æskulýðsmál sem mér er tíðrætt um. Þessa stefnu þarf að marka og sú vinna þarf að hefjast strax. Höllinn er í stöðugri notkun, eins og öll íþróttamannvirki sem við höfum reist. Við eigum að vera stolt af okkar íþróttastarfi og þá eigum við líka að viðhalda og reka þau mannvirki sem við eigum í dag með sóma, þetta er ekki gert með sóma í dag,“ segir Jónas og leggur þunga áherslu á orð sín.
Gervigrasið þjónað samfélaginu vel
Jónas segir að í sínum huga sé ekki nokkur vafi á því að besta framkvæmd sem sveitarfélagið Norðurþing hafi ráðist í á síðari tímum sé uppbygging á upphituðum gervigrasvelli. Það hafi sýnt sig í auknum lífsgæðum íbúa, ekki síst út frá lýðheilsu sjónarmiðum. „Ekki spurning, þetta svæði er notað 12 mánuði á ári, nær alla daga ársins. Ekki bara í skipulögðu íþróttastarfi heldur af almenningi á öllum aldri sem nota brautina í kringum völlinn til göngu og hlaupa. Þetta er í stöðugri notkun frá kl. 7 á morgnanna þegar þeir fyrstu koma til að ganga og þar til klukkan 22 á kvöldin þegar ljósin eru slökkt á svæðinu. Svo er ekki hugsað fyrir því að hafa starfsfólk á svæðinu nema yfir sumartímann. Það er auðvitað galið,“ segir Jónas og bætir við að sorglegast þyki honum að ekki hafi verið hugsað til enda hvernig ætti að reka svæðið.
„Sorglegast finnst manni að á þessum tíu árum frá því þetta glæsilega og mikilvæga mannvirki var byggt, að við höfum aldrei sett það upp hvernig við ætlum að reka það. Við höfum fordæmi um hvernig við rekum önnur mannvirki. Þess vegna og það vissulega hallar á þetta mannvirki varðandi viðhald, daglegan rekstur, þjónustu við iðkendurna og það fólk sem notar þetta svæði,“ segir Jónas að lokum.