Þór tekur á móti Selfyssingum í dag
Þór tekur á móti Selfossi í annarri umferð Inkasso deildar karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn hefst klukkan 16 og er þetta fyrsti heimaleikur Þórsara í Inkasso deildinni í sumar.
Heimasíða Þórs tók saman skemmtilega tölfræði úr viðureignum liðanna:
„Ef litið er til innbyrðisviðureigna liðanna frá árinu 2000 hafa liðin mæst í ellefu leikjum. Þór hefur unnið 7 en Selfoss 3 og einu sinni hafa liðin skilið jöfn. Markatalan er 25-15 Þór í vil.
Á þessu tímabili hefur Þór ekki tapað leik gegn Selfossi á Þórsvelli en síðast sóttu Selfyssingar sigur gegn Þór á Akureyrarvelli 7. ágúst 2008. Lokatölur 2-3 og skoruðu þeir Hreinn Hringsson og Ármann Pétur Ævarsson mörk Þórs. Ármann Pétur og Jóhann Helgi eru einu leikmenn Þórs í dag sem komu við sögu í umræddum leik. Manni var í byrjunarliði Þórs en Jói kom inn sem varamaður á 70. mínútu.
Síðasti leikur liðanna á Þórsvelli fór fram í ágúst 2016 og þá skildu liðin jöfn
1-1 Gunnar Örvar kom Þór í 1-0 á 30. mínútu en Selfoss jafnaði á 94. mínútu.“
Líkt og á síðasta sumri verður vegleg upphitun í Hamri þar sem allir eru velkomnir. Þar getur fólk m.a. keypt sér grillaða hamborgara og drykki á vægu verði. Einnig mun rúlla vídeó með nokkrum mörkum og tilþrifum síðasta árs á stórum skjá í Hamrinum. Upplagt fyrir fólk að mæta tímanlega og hita rækilega upp fyrir leikinn. Upphitunin hefst klukkan 15:00 en leikurinn sjálfur klukkan 16:00.