Opið hús hjá bogfimideild Akurs
Bogfimideild Akurs verður með opið hús í nýjum húsakynnum sínum við Kaldbaksgötu 4 – norðurenda á sunnudag, 7. janúar kl. 13.
Þar gefst tækifæri á að kynna sér starfsemina og prófa bogfimi en er frábært fjölskyldusport sem hentar öllum aldri. „Það geta allir komið í heimsókn og prófað að skjóta af boga og rætt við þjálfa og aðra iðkendur. Við vonum svo sannarlega að það kvikni áhugi hjá einhverjum að koma til okkar að æfa,“ segir Alfreð Birgisson hjá Bogfimideild Akurs.
Vilja stækka hóp iðkenda
Hann segir að frá því í haust þegar nýtt húsnæði við Kaldbaksgötu var tekið í notkun undir bogfimideildina hafi bætst við ágætishópur en áhugi er fyrir því að stækka hann. „Við erum með iðkendur frá 10 ára aldri og uppúr, bæði er um að ræða iðkendur sem voru að stunda sportið áður en við misstum húsnæði okkar árið 2020 sem og nýir iðkendur, en margir þeirra voru búnir að bíða eftir að við opnuðum fyrir nýliða,“ segir Alfreð.