Kylfingar streymdu í golf fram að aðventu
mth@vikubladid.is
,,Tíðin í haust hefur verið einstaklega góð og við náðum að opna golfvöllinn að Jaðri eftir þriggja til fjögurra vikna hlé,“ segir Steindór Ragnarsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar. Völlurinn hefur verið býsna vel sóttur þessa daga og vonar hann að dagarnir verði eitthvað fleiri.
„Það er mikil ánægja fyrir marga að geta tekið kylfurnar upp á ný,” segir Steindór. „Það er alltaf gaman þegar hægt er að hafa völlinn opin við góðar aðstæður.“ Hann rifjar upp að árið 2016 hafi verið haldið golfmót á Jaðarsvelli 18. desember, „og það væri nú aldeilis gaman ef við gætu endurtekið það í ár.“
Starfsmenn klúbbsins hafa einnig notið góðs af góðri tíð og hafa náð mikilli útivinnu við góðar aðstæður í allt haust.
Steindór segir liðið sumar hafa verið gott á Jaðri. ,,Það var mikið spilað, góð fjölgun í klúbbnum og unglingastarfið hjá okkur blómstrar,” segir hann. Þá hafi mótahaldið verið með eindæmum gott og öllu stærstu mótin sem klúbburinn hélt voru vel sótt. Steindór bætir við að nú þegar sé orðið fullt á hið vinsæla miðnætursólarmót, Arctic Open á næsta ári.
200 hringir að meðaltali yfir sumarmánuðina
Alls voru spilaðir 35.326 hringir á Jarðarsvelli á liðnu sumri sem er þriðja mesta aðsókn frá því talningar hófust. Fleiri hringir voru spilaðir á vellinum árin 2020 og 2021. Í ár voru að meðaltalið leiknir 175 hringir á dag, næsta flestir hringir frá því byrjað var að telja. Yfir sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst voru að meðaltali spilaðir 200 hringir.
Völlurinn var opin aðeins færri daga en undanfarin ár, var opnaður 16. maí, en veður var ekki eins gott og í fyrrasumar. Þá segir Steindór að hömlum sem fylgdu kórónuveirufaraldri hafi verið aflétt og því margir sem áður spiluðu golf hér á landi hafi brugðist sér til útlanda í golfferðir.