Körfubolti: Sögulegur dagur hjá Þórsliðinu!
Kvennalið Þórs í körfubolta mætir liði Grindavíkur í undanúrslitum VÍS-bikarkeppninnar í Laugardalshöllinni í kvöld. Leikurinn hefst kl. 20.
Í fyrsta skipti í áratugi á Þór lið í undanúrslitum bikarkeppninnar í körfubolta. Eins og áður hefur komið fram í umfjöllun okkar var kvennalið Þórs eitt það besta á landinu um og eftir 1970. Það lið vann þrjá Íslandsmeistaratitla og varð bikarmeistari 1975, fyrir 49 árum. Nú á félagið lið í undanúrslitum VÍS-bikarkeppni kvenna og stóra stundin er runnin upp.
Það dylst líklega engum að Þór er litla liðið af þeim fjórum sem mætt eru til leiks í undanúrslitum. Hin þrjú eru í toppbaráttu Subway-deildarinnar, Keflavík með örugga forystu á toppnum, Grindavík og Njarðvík jöfn í 2. og 3. sæti. En staðan í deildinni segir auðvitað ekki alla söguna. Bikarkeppni býður oft upp á eitthvað óvænt og skemmtilegt, auk þess sem Þórsliðið hefur sýnt að á góðum degi er allt hægt, til dæmis að vera fyrstar til að sigra topplið Keflavíkur í deildinni í vetur. Af hverju ekki að sigra liðið í 2. sæti deildarinnar þegar komið er í undanúrslit bikarkeppninnar?
Ef til vill þarf einhverja töfra til að fara alla leið og þá er það bara þannig. Stuðningsfólkið getur kallað fram þessa töfra. Hér er kannski viðeigandi að vitna í sjónvarpsþættina The Spiderwick Chronicles: „Having someone believe in you is the most powerful form of magic there is.“ Sem þýða mætti: „Að einhver hafi trú á þér eru kröftugustu töfrar sem til eru.“
Trúum á þær og tökum skrefið alla leið með þeim kröftugu töfrum sem það leiðir af sér.
- Eva Wium Eliasdóttir: „Langaði alltaf að vera sjálf á þessu sviði“
- Heiða Hlín Björnsdóttir: „Sætt að fara í Höllina með uppeldisfélaginu“
Fyrir þau okkar sem ekki fara suður yfir heiðar i dag skal á það bent á að leikurinn verður i beinni útsendingu á RUV2
Þetta er að finna á www.thorsport.is