KA fær miðvörð frá Slóveníu
KA hefur borist liðsstyrkur fyrir endasprettinn í Bestu deildinni í sumar en Gaber Dobrovoljc hefur skrifað undir samning við félagið út núverandi tímabil. Gaber er 29 ára gamall miðvörður sem kemur frá Slóveníu en hann kemur frá liði NK Domžale í Slóveníu. Greint er frá þessu á heimasíðu félagsins.
"Það var ljóst að KA liðið þurfti á nýjum leikmanni að halda eftir að lánssamningur við Oleksiy Bykov rann út og erum við afar spennt fyrir því að fá Gaber til liðs við okkur," segir í tilkynningunni
Gaber kemur úr unglingastarfi NK Domžale og hefur leikið allan sinn feril með liðinu fyrir utan eitt ár með Fatih Karagümrük í Tyrklandi. Með Domžale varð Gaber slóvenskur bikarmeistari árið 2017 og lék auk þess 25 evrópuleiki með liðinu. Á sínum tíma lék Gaber 27 leiki fyrir yngrilandslið Slóveníu sem og tvo leiki fyrir B-landslið.
KA liðið er í 3. sæti Bestu deildarinnar með 27 stig eftir 14 leiki og er þar að auki komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins þar sem Akureyrarliðið tekur á móti Ægi þann 10. ágúst næstkomandi.