Hafdís Íslandsmeistari í Rafhjólreiðum 2024
Um helgina fór fram fyrsta Íslandsmótið í Rafhjólreiðum þar sem keppendur hjóluðu á ,,trainerum” sem eru þannig búnir að þeir lesa hversu mörg vött hjólreiðamaðurinn framkallar með því að snúa sveifunum á hjólum sínum og skila því svo yfir í tölvuleikinn zwift sem notar það svo ásamt skráðri þyngd til að ákvarða hraðann sem keppandinn er á í leiknum.
Margir af bestu hjólurum landsins voru því sestir á keppnishjólin sín fyrir framan tölvuskjái á laugardagsmorguninn til að taka vel á því.
Keppnin var send beint út af Rafíþróttasambandi íslands og voru lýsendur í stúdiói Rafíþróttasambandins frá hjólafélaginu Tindi sem hafði veg og vanda af þessu íslandsmóti. Umgjörðin var öll hin glæsilegasta og fjölmargir fylgdust með.
Svo fór að í kvennaflokki varð Hafdís Sigurðardóttir frá Hjólreiðafélagi Akureyrar íslandsmeistari en hún tók á sprett þegar örfáir kílómetrar voru eftir í 32 km brautinni og sigraði nokkuð örugglega. Í öðru sæti var svo Silja Jóhannesdóttir úr HFA og í þriðja Sóley Kjerúlf Svansdóttir HFA. Akureyringar hafa verið mjög öflugir í kvennaflokki undanfarin ár og svo virðist sem þannig muni það verða áfram í sumar.
Akureyringar áttu ekki keppanda í karlaflokki A en tveir kepptu í B flokki og varð Ómar Þorri Gunnlaugsson HFA annar í B flokki. En A og B flokkur var ræstur út á sama tíma og náði Ómar þeim frábæra árangri að skáka mörgum af reyndari hjólreiðamönnum landsins og enda í 5. sæti í heildina (A og B).
Frábær árangur hjá Ómari sem hefur ekki verið að keppa mikið í götuhjólreiðum hingað til.
Óhætt er að óska Hafdísi til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn sem og hinum Akureyringunum með frábæran árangur.