„Alltaf markmiðið að fá þrjú stig úr hverjum leik“

Stelpurnar í Þór/KA taka á móti Haukastúlkum í dag klukkan 18 á Þórsvelli. Mynd úr safni/Sævar Geir
Stelpurnar í Þór/KA taka á móti Haukastúlkum í dag klukkan 18 á Þórsvelli. Mynd úr safni/Sævar Geir

Þór/KA trónir á toppi Pepsídeildar kvenna í fótbolta þegar þremur umferðum er lokið, með fullt hús stiga.

Það er ekki ofsögum sagt að tímabilið fari frábærlega af stað hjá norðankonum og margir eru þegar farnir að spá þeim Íslandsmeistaratitlinum. „Það var náttúrlega markmiðið að fara í alla leiki til að vinna þá og við vorum búnar að undirbúa okkur vel. Það var alltaf markmiðið að fá þrjú stig úr hverjum leik, sama hverjir mótherjarnir séu,“ sagði Margrét Árnadóttir, leikmaður Þórs/KA í stuttu spjalli við Vikudag en hún skoraði eitt marka Þórs/KA í 1-4 sigri gegn Fylki á sunnudag fyrir viku.

Margrét sagðist hafa fulla trú á því að liðið gæti farið alla leið í sumar. „Já, ég er 100 prósent viss um það. Við þurfum bara að að halda haus.“ Þór/KA tekur á móti Haukum í dag klukkan 18 á Þórsvelli. Haukastúlkur hafa ekki farið jafn vel af stað í sumar og sitja á botninum án stiga eftir þrjár umferðir. Margrét var samt ekki á því að staða þeirra í deildinni skipti nokkru máli fyrir þennan leik. „Það eru þrjú stig í boði úr hverjum leik þannig að það er jafn mikilvægt að vinna öll lið, sama hvar þau eru í deildinni. Við ætlum að mæta í þennan leik eins og við höfum gert í hina og ná í þrjú stig,“ sagði Margrét Árnadóttir, leikmaður Þórs/KA.

Nýjast