Allir Íslandsmeistararnir komu frá Nökkva
Íslandsmótinu í kænusiglingum í Hafnarfirði lauk á laugardag sl. eftir 6 skemmtilegar og fjölbreyttar umferðir.
Skemmst er frá því að segja að allir Íslandsmeistarar ársins í siglingum eru úr Siglingaklúbbnum Nökkva á Akureyri. Tveir bestu Lasersiglarar landsins eru Þorlákur Sigurðsson í Laser Radial flokki og Björn Heiðar Rúnarsson Laser Standard flokki, báðir úr Nökkva.
Þá varð Þorlákur Sigurðsson Íslandsmeistari sjöunda árið í röð á Laser Radial. Í Optimist A flokki varði Emil Andri titil sinn frá síðasta ári og nýr Íslandsmeistari í B flokki er Daði Jón Hilmarsson.
„Við erum stærsti siglingaklúbburinn á Íslandi og vorum með 20 keppendur frá 10-27 ára á Íslandsmótinu,“ sagði Rúnar Þór Björnsson, formaður Nökkva í stuttu spjalli við Vikudag og var hinn ánægðasti.
Það er óhætt að segja að mikil gróska sé í starfi klúbbsins og senn hefjast framkvæmdir við nýtt bátaskýli á félagssvæði Nökkva við Pollinn. „Útboð á nýja húsinu fer fram í þessum mánuði eða næsta. Við vonumst til að fyrri hluti framkvæmdanna verði tilbúinn á Íslandsmótinu í siglingum sem fer fram á Akureyri að ári,“ sagði Rúnar Þór.