13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Von á 1400 piltum á N1-mótið
Stærsta knattspyrnumót ársins, N1 mótið, hefst á Akureyri á morgun. Á bilinu 150-160 lið taka þátt og leika á tólf völlum á KA svæðinu. Liðin koma alls staðar að af landinu og á fjórða tug félaga senda keppnislið. Mótinu lýkur með verðlaunaafhendingu laugardaginn 6. júlí. Ljóst er að N1 keppendur og fararstjórar munu setja mikinn svip á bæjarlífið á Akureyri þessa vikuna. Alls verða um 1.400 drengir í 5. flokki sem leika og fararstjórar eru um 150 talsins. Þá eru ótaldir foreldrar og vinir sem leggja leið sína norður til að fylgjast með sínum mönnum spila á mótinu. Talið er að heildarfjöldi gesta á Akureyri þessa daga vegna mótsins verði á bilinu sex til sjö þúsund manns.
Leikinn er sjö manna bolti á tólf keppnisvöllum á KA svæðinu. Hvor hálfleikur er fimmtán mínútur og leikhlé ein mínúta. Leikið er í riðlum og verð lið jöfn að stigum í riðlinum ræður markamunur, því næst skoruð mörk. Dugi það ekki til að fá fram úrslit ræður hlutkesti. Þegar komið er í úrslitakeppnina er leikið til þrautar. Ef jafnt er eftir að venjulegum leiktíma er lokið fer fram vítaspyrnukeppni. Þrjár spyrnur á lið. Verði enn jafnt, fer fram bráðabani.
N1 er styrktaraðili mótsins en framkvæmdin í höndum KA. Þetta samstarf hefur gengið afskaplega vel í gegnum árin og hafa tugþúsundir drengja tekið þátt í mótinu. Flestar stjörnur íslenskrar knattspyrnu tóku þátt í N1 mótinu þegar þeir voru í 5. flokki. Það verður því að teljast mjög líklegt að framtíðar landsliðsmenn leynist í einhverju af þeim liðum sem taka þátt að þessu sinni.
KA býður að venju gestum mótsins í sund og mega þátttakendur, þjálfarar og fararstjórar fara einu sinni á dag í Sundlaug Akureyrar. Þá er öllum þátttakendum boðið í Borgarbíó á spennumyndina After Earth.
Nánari upplýsingar um mótið má sjá á heimasíðu KA http://www.ka-sport.is/n1motid/2013/