Vísindagleraugun verða sett upp í sumar
STEM Húsavík stendur fyrir vísindanámskeiði undir yfirskriftinni Náttúruvísindakrakkar, dagana 19. - 30. júní. Kennt verður í tvær klukkustundir alla virka daga.
Námskeiðið er fyrir krakka sem fædd eru 2011-2013. „Já við ætlum að setja upp vísindagleraugun í sumar og gerum rannsóknir með krökkunum í nærumhverfinu okkar,“ segir Huld Hafliðadóttir, forstöðukona STEM Húsavík.
Huld mun kenna á námskeiðinu ásamt Bridget Burger, Fulbright sérfræðingi í STEM kennslu. Huld segir að boðið verði upp á fjölbreytta náttúruskoðun og rannsóknir á námskeiðinu.
„Við förum út í náttúruna og lærum um allt mögulegt, t.d. ferli vatnsins í umhverfinu okkar, tökum sýni og skoðum í smásjá. Þá munum við skoða atferli fugla, jafnvel fuglatalningu. Svo förum við og heimsækjum vísindafólk á Náttúrustofunni, Hvalasafninu, Háskólann og Ocean missions. Í grunnin eru krakkarnir að fara læra um ferli rannsókna og að safna gögnum,“ útskýrir Huld og bætir við að einnig verði listafólk heimsótt og fengið til að segja frá því hvernig náttúran veitir þeim innblástur í listsköpun sinni.
„Svo erum við líka að vinna með náttúrutengingu, smá svona „mindfullness“. Aðallega er þetta gert til þess að gefa börnum innsýn inn í það hvernig unnið er að rannsóknum í náttúrunni,“ segir Huld og bætir við að lokum að börnin munu fá náttúrudagbók sem þau skrifa eða teikna í og taka síðan með sér heim að námskeiði loknu.
Námskeiðið hefst á morgun mánudaginn 19. júní og mun standa yfir í tvær vikur en kennt er í tvo tíma á dag.
Námskeiðið er styrkt af Barnamenningarsjóði.