Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
Jólaminningar
Í æskuminningunni var alltaf snjór um jólin. Í jólagjafaleit var farið í Kaupfélag Þingeyinga, en einnig í búðir sem háðu samkeppni við kaupfélagið, Bókabúðina, Skóbúðina og Lenubúð. Þar var allt til alls.
Í skólanum voru gluggar skreyttir með fallegum jólamyndum. Við föndruðum jólakort og gáfum skólasystkinum, man að við stelpurnar vorum afar samviskusamar og gerðum fyrir alla í bekknum, á meðan það komu afar fá frá strákunum til okkar.
Á aðventunni fórum við í sveitina, ásamt stórfjölskyldunni, þar voru amma og Guðný föðursystir búnar að fletja út laufabrauðskökur, frá því um nóttina. Svefnherbergi var lagt undir framleiðsluna og kökur breiddar yfir hjónarúmið. Svo var hafist handa, allir skáru út. Sumir voru listrænir og lögðu mikið í útskurðinn, aðrir voru meira að flýta sér, þar á meðal ég. Svo var tekið til að steikja, þar réðu karlarnir ríkjum, fyrst var afskurðurinn steiktur, síðan kökurnar. Ljúfar og dýrmætar minningar.
Aðventuljós falin í heimilisbílnum
Heima á Höfðaveginum var jólatréð aldrei skreytt fyrr en á Þorláksmessu, en jólaljósin voru sett út í glugga. Þegar við fluttum frá Svíþjóð komu nokkuð mörg aðventuljós með. Þau voru ekki orðin þekkt á Húsavík á þeim árum. Þeim plantaði móðir í alla glugga, fallegt þótti flestum, vandræðalega mikið fannst Díu systur sem tók sig til og faldi nokkur í bílnum. Við það minnkaði birtan yfir Höfðaveginn nokkuð og minna álag varð á rafmagnið.
Ný hefð í nýju landi
Við fluttum til Svíþjóðar 1978 og bjuggum þar í rúmt ár. Þar skapaðist alveg nýr siður hjá okkur Brynju systir, það er, að láta ekki koma sér á óvart. Fyrir jól fóru að koma pakkar frá Íslandi til Gautaborgar. Þeir voru vandlega faldir inn í skáp svo enginn færi að skoða gjafirnar. Einn daginn leiddist okkur systrum og við fengum þá frábæru hugmynd að líta á pakkana. Eitt leiddi af öðru. Við byrjuðum að lesa á miðana. Næst fórum við smá að þreifa á pökkum, harður – mjúkur. Svo fór að færast hiti í leikinn. Við einfaldlega opnuðum pakkana og pössuðum okkur að líma þá eins aftur. Okkur til varnar þá leiddist okkur og þetta var skemmtilegur leikur. Reyndar skemmdi þetta aðeins spenninginn á aðfangadag, en það er líka gott að vita hverju maður á von á, væntingastjórnun er það kallað í dag. Þessi góði siður fylgdi okkur Brynju systur og þetta er gott ráð fyrir þá sem vilja ekki láta koma sér á óvart. Þó ég segi sjálf frá vorum við Brynja orðnar meistarar i að hylja spor okkar. Við settum nýtt límband yfir gamla límbandið af mikilli fagmennsku.
Jólagjafir til pabba
Yfirleitt var erfiðast að finna eitthvað handa föður mínum, sem er mjög hófstilltur þegar kemur að gjöfum, sérstaklega þegar hann þurfti að borga þær sjálfur. Í æsku dugði að kaupa sokkapar handa honum, sem hann var mjög sáttur við.
Þegar ég varð eldri þýddi auðvitað ekki lengur að láta hann borga og ég fór að kaupa eitthvað sjálf. Oft var það bók sem rataði í pakkann, jafnvel eitt sokkapar með. Faðir var alltaf ánægður, sama hvað. Svo var það eitt árið að ég tók eftir því að í skrifstofuherberginu voru bækur, enn í plasti, sem ég hafði gefið honum áður í jólagjöf. Þarna sá ég frábært tækifæri, annars vegar spara (ég var jú tekjulaus í skóla) og aðeins stríða þeim gamla. Ég tók eina bókina, pakkaði henni inn og merkti föður. Ég beið svo spennt eftir aðfangadegi til að sjá viðbrögðin. Þau létu ekki á sér standa. Faðir var mjög glaður einmitt bókin sem hann langaði í.
Að ári liðnu fór ég aftur að skipuleggja jólagjafir, fór inn í skrifstofuherbergið, og viti menn, sama bók enn í plasti. Í anda sjálfbærni og minni umhverfissóunar, pakkaði ég bókinni inn. Beið ég spennt eftir viðbrögðum föðurs. Enn var hann spenntur og glaður yfir þessari fínu bók og var fullur þakklætis. Þriðja árið og enn var bókin í plastinu ásamt tveimur öðrum bókum sem hann hafði fengið fyrr. Nú pakkaði ég þeim öllum inn, í þrjá pakka og sokkapar í þann fjórða.
Faðir hafði orð á því hversu marga pakka hann fengi þessi jólin. Sagði að vísu við sjálfan sig að hann kannaðist eitthvað við þessar bækur, velti fyrir sér hvort hann væri kannski búinn að lesa þær. Þá sprungum við systur úr hlátri en þá var þetta sparnaðarráð úti. Mæli samt með þessu fyrir aðra ef þið hafið tækifæri til. Ég hef reyndar reynt þetta á börnunum mínum, og fékk ekkert þakklæti.
Samandregið.
Í annríki dagsins er mikilvægt, ekki síst fyrir litlar manneskjur, að skapa fjölskylduhefðir og vera saman á aðventunni, búa til fallegar æskuminningar. Verja stundum með þeim sem standa okkur næst.
Mikilvægt að leggja áherslu á nýtni og sjálfbærni. Það er auðvitað galið að hafa góðar gjafir enn í plastinu, betra að pakka aftur inn. Gjöfin var augljóslega að gleðja rétt eins og fyrri ár, og er það ekki einmitt andi jólanna, að gleðja.
Það sem getur valdið okkur stressi er hið óvænta, vera ekki undirbúin óvæntum aðstæðum. Ein besta forvörnin er einfaldlega að vita hvers er að vænta á aðfangadegi. Ég er reyndar orðin áhættusæknari og hætt að opna gjafir fyrir aðfangadag.
Gleðileg jól!