Jólahugvekja - Máttur trausts, einlægni og kærleika.

Sindri Geir Óskarsson skrifar jólahugvekju
Sindri Geir Óskarsson skrifar jólahugvekju

Það er komið að því. Undanfarnar vikur höfum við leyft okkur að undirbúa jólin, og undirbúa okkur sjálf undir jólin. Einhver okkar hafa látið jólalögin koma sér í rétta skapið, eða lagt sig fram um að umbera þau. Ég og fleiri tókum þátt í Whamageddon, reyndum að lifa aðventuna af án þess að heyra Last Christmas með gæðadrengjunum í Wham. Ég tórði ekki lengi en það er í lagi, þeir eru ágætir.

Flest var á sínum stað og í sínum fasta takti í ár, baksturinn, laufabrauðið, gjafakaupin. Þótt aðventan eigi að vera tími friðar og undirbúnings, þá verður hún frekar tími anna og kapphlaups við undirbúning. Við erum mörg hver rétt að ná í skottið á okkur þegar klukkurnar hringja og þau eru bara komin. Það eru jól. Og akkúrat þá, þegar við erum ekki lengur að bíða eftir jólum, á því augnarbliki held ég að flestir Íslendingar upplifi svolítið magnaða núvitundarstund, því við erum. Erum ekki að undirbúa eða skipuleggja, erum ekki að hugsa til baka og velta fyrir okkur, við erum að iðka jólin á okkar hátt, þar og þá, hér og nú. Við finnum að það eru jól.

Þrátt fyrir að hátt spennustig geti fylgt jólum þá vona ég að við þekkjum öll þessa sérstöku jólahelgi sem er ekki bundin íburði, skrauti, veislumat eða pökkum – heldur einfaldlega því að fólk tekur á móti þessari hátíð ljóss og friðar, ljær henni merkingu og hvílir í stundinni.

Sú merkin sem jólin færa mér snýr að barninu í jötunni. Kristi Jesú sem einnig fær nafnið Immanúel í guðspjöllunum, en það þýðir Guð með okkur.

Það að Guð ákveði að fæðast sem fátækt kríli sem neyðist til að leggjast á flótta með foreldrum sínum, fari í gegnum allt það besta og versta sem tilheyrir mannlegri tilvist, upplifir öryggið í faðmi foreldra sinna, þekkir vináttu, náungakærleik, gleði, missi, sorg, að vera útskúfað, meiddur og þjáður – það segir mér að Guð geti sannarlega verið Guð með okkur.

Fyrir mér birtir Jesúbarnið lífsveg sem færir okkur í áttina að ljósi og birtu, friði, kærleik, réttlæti og von. Veg sem hjálpar okkur að þroskast í þá átt að vera fólk sem getur mætt erfiðleikum með æðruleysi og trausti og mætt sigrum og gleðistundum með auðmýkt og þakklæti í hjarta.

Um jól undrast ég og fagna því að sami sköpunar- og kærleikskraftur sem mótaði heiminn liggi í jötunni, að sá máttur sem lítil kríli á öllum tímum hafa til að afvopna hjörtun okkar, sé sami máttur sem Guð mætir heiminum með; máttur trausts, einlægni og kærleika.

Það að Guð birtist ekki eins og samfélagið sér vald, styrk og mátt segir mér að samfélagið okkar þurfi enn á þessum boðskapi að halda. Þurfi enn á því að halda að heyra að fegurð lífsins sé yfirleitt fólgin í því smáa og látlausa – að Guð mæti okkur í hverju barni sem fæðist inn í þessa veröld, að í hverri manneskju sem verður á vegi okkar búi neisti guðdómsins, því sé það hlutverk okkar allra að skapa veröld þar sem við getum mæst í augnhæð, eins og systkin, eins og börn Guðs, sem er með okkur alla daga.

Á meðan við vitum að veröldin er ekki þannig reynum við öll að vera ljósberar, á okkar hátt, í okkar aðstæðum. Mæta hversdeginum með þeirri von sem jólin boða, mæta samferðafólki okkar með þeim kærleik sem kristur boðar og mæta okkur sjálfum með þeirri trú, að sama hver við erum eða hvar við erum, þá sé sjálft ljós lífsins innra með okkur og með okkur, styrkir okkur, leiðir okkur og býður okkur að fylgja sér eftir þeim vegi sem færir ljós, blessun og frið inn í heiminn.

Kæru vinir, gleðileg jól, megi friður og birta fylgja ykkur á nýju ári.

 

Nýjast