Vinnslulausnir frá Slippnum Akureyri vöktu mikla athygli á sjávarútvegssýningu í Barcelona
Slippurinn Akureyri kynnti á dögunum starfsemi sína, þjónustu og framleiðslu, á Seafood Processing Global sýningunni í Barcelona. Sýningin er alþjóðleg og er vettvangur alls hins besta og framsæknasta í heiminum sem sjávarútvegsfyrirtæki og aðilar í greininni hafa upp á að bjóða.
Fjölmargir aðilar heimsóttu bás Slippsins og sýndu mikinn áhuga á vörum og þjónustu fyrirtækisins, sem spannar vítt svið fyrir skipaþjónustu, vinnslubúnað og fiskeldi. Sæljónið sem er blæðingar- og þvottalausn frá Slippnum vakti verðskuldaða athygli á sýningunni en það tryggir blóðtæmingu eins og best verður á kosið og framúrskarandi aflameðferð.
Vörulína Slippsins hefur stækkað verulega undafarið og ber þar helst að nefna heildarlausnir í saltfiskvinnslu, hrognavinnslu, sjálfvirkum fiskikerakerfum og í vigtun á afla svo fátt eitt sé nefnt.
„Við fengum kærkomið tækifæri til að hitta núverandi og væntanlega viðskiptavini og skiptast á skoðunum og hugmyndum. Mikinn áhuga var að finna frá innlendum og erlendum útgerðum á vörum okkar og þjónustu en Slippurinn byggir á sterkum grunni og er afar vel staðsettur í miðju Norður-Atlantshafinu. Við erum með stór og spennandi áform um að vaxa innan greinarinnar og framtíðin er sannarlega björt“ segir Páll Kristjánsson framkvæmdastjóri Slippsins.