Vinna við fyrsta áfanga nýs hjúkrunarheimils hefst í næstu viku

Tölvumynd af nýju hjúkrunarheimili. Mynd/Arkís arkítektar
Tölvumynd af nýju hjúkrunarheimili. Mynd/Arkís arkítektar

Jarðvinnuframkvæmdir vegna nýs hjúkrunarheimils á Húsavík munu hefjast í næstu viku. Vinna við uppsteypu og fullnaðarfrágang verður boðin út næsta vor.


 

Tilboð í jarðvinnuframkvæmdir vegna nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík voru opnuð  í september en útboðið er á vegum Ríkiskaupa.

Frávikstilboð voru ekki heimil skv. útboðsgögnum í þessu útboði. Þrjú tilboð bárust í þennan fyrsta verklið hjúkrunarheimilisins og átti Húsheild ehf. lægsta tilboð eða alls 58.100.500 krónur. G. Hjálmarsson hf. Bauð 64.735.000 krónur og hæsta tilboð átti Steinsteypir ehf. alls 68.605.670. kr.

Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 74.273.500 krónur og voru öll tilboðin því vel undir þeirri fjárhæð.

Gengið hefur verið til samninga við Húsheild sem átti lægsta tilboðið og samkvæmt upplýsingum blaðsins hefjast framkvæmdir í næstu viku.

Upphaflega áttu framkvæmdir við jarðvinnu að hefjast fyrri part sumars en það hefur ekki gengið eftir. Samkvæmt skriflegu svari Drífu Valdimarsdóttur, staðgengils sveitarstjóra Norðurþings eru ástæður tafanna sú að útboðsgögn og heimildir til útboðs lágu ekki fyrir fyrr en um miðjan júlí.

Segist Drífa eiga von á að Húsheld hefji framkvæmdir við girðingar og svo jarvinnu í kjölfarið á næstu dögum. „Þessi dráttur á jarðvinnuútboði hefur engin sjáanleg áhrif á verklok þar sem það mun alltaf myndast tímagap frá því að jarðvinnu lýkur og að framkvæmdir hefjist,“ segir hún og bætir við að stefnt sé að því að bjóða út framkvæmdina við byggingu nýs hjúkrunarheimilis næsta vor. „Þ.e. uppsteypu og fullnaðarfrágang en lokadagsetning liggur ekki fyrir. Hönnuðir skila gögnum og ljúka sinni hönnun í lok þessa árs og tekur þá útboðsferli við,“ útskýrir Drífa.

Smellið gif

Nýjast