Vinabæjarheimsókn til Álasunds í Noregi

Gestir og gestgjafar á vinabæjarmóti í Álasundi í Noregi. Mynd/Akureyri.is
Gestir og gestgjafar á vinabæjarmóti í Álasundi í Noregi. Mynd/Akureyri.is

Heimir Örn Árnason, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, og Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs, tóku í síðustu viku þátt í norrænu vinabæjarmóti sem fram fór í Álasundi í Noregi. Þar hittust kjörnir fulltrúar og bæjar- og borgarstjórar vinabæjanna fimm, sem eru auk Akureyrar og Álasunds; Randers í Danmörku, Västerås í Svíþjóð og Lahti í Finnlandi. Frá þessu er greint á heimsíðu Akureyrarbæjar.

Tilgangurinn með heimsóknum á borð við þessa er að deila reynslu, ræða helstu áskoranir sem sveitarfélög standa frammi fyrir og læra hvert af hvort öðru. Miðlað er upplýsingum um það hvernig þjónustu annarra sveitarfélaga er háttað, mannvirki eru skoðuð og boðið upp á kynningar á atvinnulífi, framkvæmdum og uppbyggu innan þess sveitarfélags sem er gestgjafi hverju sinni.

Á dagskrá vinabæjarmótsins í Álasundi var m.a. heimsókn í „Norsk Maritimt Kompetansesenter“ eða Norsku sjávarútvegs þróunar- og frumkvöðlamiðstöðina sem gegnir stóru hlutverki á vettvangi sjávarútvegs í Noregi. Miðstöðin er hluti af háskólasamfélaginu í Álasundi og með fjölmarga samstarfsaðila. Eitt þeirra verkefna sem sagt var frá var stórt samstarfsverkefni með grunnskólum í sveitarfélaginu þar sem áhersla er lögð á þróunar- og frumkvöðlaverkefni. Fram kom að mikil áhersla er í menntakerfinu hjá þeim á tækni og vísindahugsun og er það gert strax frá unga aldri. Listamiðstöðin „Aggregat Kunstnerfellesskap“ var heimsótt en þar er unnið þvert á listgreinar og einnig var farið í „Atlanterhavsparken“ sem er eitt stærsta saltvatnssjávardýrasafn í Norður Evrópu m.a. með áherslu á starf vísindaseturs sem ætlað er að einblína á ungmennastarf.

Einnig var mikil umræða um varnarmál í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu en í þeim efnum er staða vinabæjanna fimm afar ólík, þó ekki sé nema út frá landfræðilegri staðsetningu.

Af öðrum málum sem voru til umræðu má nefna áskoranir er snúa að skipulagsmálum, sameiningarmálum og ferðaþjónustu, til að mynda varðandi komur skemmtiferðaskipa. Næsta vinabæjarmót kjörinna fulltrúa fer fram á næsta ári í Västerås í Svíþjóð.

Vinabæjarsamstarfið snýst einnig um samskipti ungmenna (NOVU) og í lok júnímánaðar tekur Akureyrarbær á móti ungmennum á aldrinum 16-20 ára. Unnið verður saman að verkefni út frá spurningunni um það hvort menning geti fært okkur nær hvert öðru með raddir ungs fólks í huga en umrætt vinabæjarsamstarf ungmenna er eitt það virkasta á Íslandi.

Nýjast