Vilja setja upp fjórar hraðhleðslustöðvar á Húsavík
Skipulagsfulltrúa Norðurþings barst nýverið erindi frá HS Orku þar sem óskað er eftir stæði við Ketilsbraut fyrir hraðhleðslustöðvar frá IntaVolt Iceland ehf. Skipulags- og framkvæmdaráð tók erindið fyrir í vikunni og tók jákvætt í það.
Áforma uppbyggingu á Íslandi
Í erindinu frá HS Orku kemur fram að InstaVolt Iceland sé íslenskt dótturfélag InstaVolt sem er breskt félag stofnað árið 2016. Félagið sérhæfir sig í uppbyggingu og rekstri hraðhleðslunets víðsvegar um Bretland og er í dag stærsta fyrirtækið í Bretlandi á þessum markaði með um 1200 hleðslustöðvar. Félagið áformar uppbyggingu á Írlandi, Spáni, Portúgal og á Íslandi.
Nú þegar hefur félagið sett upp 20 120 kw hraðhleðslustöðvar í Reykjanesbæ. Yfirlýst markmið félagsins er að koma upp 200 hleðslustöðvum, hið minnsta, á Íslandi á næstu 18 mánuðum.
Félagið sér um kostnað
Samkvæmt erindinu mun InstaVolt standa undir öllum kostnaði við uppsetningu og tryggja sómasamlegan frágang á svæðinu. „Enginn kostnaður mun falla á Sveitarfélagið við uppbyggingu eða rekstur hleðslustöðvanna,“ segir í erindinu en félagið óskar eftir 25 ára leigusamningi um fjögur hleðslustæði. Þá sé jafnframt stefnt á að fjölga þeim í samræmi við eftirspurn.
Vilja ganga fljótt í málið
„Verði tekið jákvætt í erindið mun InstaVolt stefna að því að koma upp hleðslustöðvunum sem fyrst og að því gefnu að samtal við dreifiveitu gangi vel má gera ráð fyrir því að stöðvarnar verði komnar upp innan 2. Mánaða. Um samstarf HS Orku og InstaVolt HS Orka og InstaVolt eru með langtíma samstarfssamning upp uppbyggingu hraðhleðslunets fyrir rafbíla á íslandi,“ segir í erindinu.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings tekur jákvætt í erindið og hefur falið sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs að ganga til samninga við HS Orku og InstaVolt Iceland ehf. og leggja fyrir ráðið að nýju.