Vilja reisa fimm hæða fjölbýlishús við Stóragarð

Fyrsta skóflustungan tekin að Útgarði 2 fyrir skemmstu. Mynd/epe
Fyrsta skóflustungan tekin að Útgarði 2 fyrir skemmstu. Mynd/epe

Byggðarráð Norðurþings samþykkti nýverið tillögu skipulags og framkvæmdaráðs um að Naustalæk ehf. yrði úthlutað lóðinni að Stóragarði 18 á Húsavík, til uppbyggingar á fjölbýlishúsi. Ráðið féllst jafnframt á að gera tillögu að breytingu deiliskipulags sem heimili allt að 25 íbúðir á lóðinni. Úthlutunin er háð því að fyrirhugaðar skipulagsbreytingar í Reitnum nái fram að ganga.

Lóðin sem um ræðir er sunnan við íbúðakjarna fyrir fatlaða sem tekinn var í notkun í desember á síðasta ári.

Friðrik Sigurðsson hjá Naustalæk segir í samtali við Vikublaðið að deiliskipulagið geri reyndar aðeins ráð fyrir 20 íbúðum á lóðinni en plön félagsins ganga út á að reisa fjölbýlishús á fimm hæðum með fimm íbúðum á hverri hæð. „Það er spurning hvort það verði fjórar íbúðir á hæð eða fimm. Húsið sem við vorum búin að láta teikna er fimm hæða, með fimm íbúðum á hverri hæð eða 25 íbúðir alls,“ sagði hann og reiknaði ekki með öðru en að þær breytingar fengjust í gegn.

„Planið hjá okkur er að reyna hafa jarðvegsskipti á þessu ári, þetta er óttaleg mýri á þessu svæði. Svo sjáum við til hvernig staðan verður á næsta ári með uppbyggingu,“ útskýrir Friðrik.

Friðrik segir að áður en uppbygging hefjist á lóðinni verði að meta markaðsaðstæður. „Já, það eru alls kyns hörmungar í gangi í heiminum sem geta haft áhrif, fyrir utan vaxtastigið sem hefur verið á uppleið.“

Hann telur þó að íbúðaþörfin sé svo sannarlega til staðar á Húsavík enda hefur verið skortum á litlum og meðalstórum íbúðum í bænum um langt skeið. „Það eru allar forsendur fyrir því að þörfin sé til staðar og það er út frá þeim forsendum að við sóttum um lóðina. Þá er það planið hjá sveitarfélaginu að lengja Stóragarðinn suðurað Ásgarði. Þessi umsókn okkar þrýstir á að klára þessa Stóragarðstengingu,“ segir Friðrik.

 Uppbygging að fara af stað

Naustalækur er með fleiri verkefni í gagni en nýverið var tekin fyrsta skóflustunga að nýju fjölbýlishúsi fyrir eldri borgar að Úgarði 2. „Við erum að einbeita okkur fyrst og fremst núna að klára Útgarð 2,“ segir Friðrik og bætir við að hann reikni með að uppbygging hefjist strax að loknum sumarleyfum, en það er Trésmiðjan Rein sem er aðalverktaki verkefnisins.

„Það er búið að taka fyrir húsinu alveg og Trésmiðjan Rein hefur verið að steypa einingar í húsið. Þegar þeir byrja á húsinu þá er þetta ekki ósvipað og lego, þetta húrrast upp alveg,“ segir Friðrik léttur í bragði og bætir við að áætlað sé að húsið taki allt að helmingi styttri tíma í byggingu en fjölbýlishúsið að Útgarði 6 sem er 18 íbúða hús.   „Þetta hús er bara 9 íbúðir og ég reikna með að uppbyggingin fari að  mjakast í gang,“ segir hann að lokum.

Nýjast