27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Vilja að bærinn styðji frk Ragnheiði
Þrír bæjarfulltrúar, Hilda Jana Gísladóttir, S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, B-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista vilja að Akureyrarbær geri þriggja ára samning við verkefnið frk Ragnheiður sem Eyjafjarðardeild Rauða krossins á Akureyri sér um, að upphæð ein milljón króna árlega.
Eyjafjarðardeildin hefur óskað eftir stuðning við verkefnið, en kostnaður við það nemur um 5 milljónum króna í ár. Hilda Jana lagði fram tillögu á fundi bæjarstjórnar í liðinni viku um að bærinn styðji við verkefnið og var hún samþykkt með 10 greiddum atkvæðum. Hlynur Jóhannesson, Miðflokki sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Vísað til velferðarráðs
Fram kemur í tillögunni að fkr Ragnheiður sé samfélagslega þarft verkefni sem þjónusti einstaklinga með erfiðan fíknivanda, veiti heilbrigðisþjónustu, sálrænan stuðning og nálaskiptiþjónustu. Einnig að mikilvægt sé að samningar náist við Sjúkratryggingar Íslands um verkefnið til framtíðar, auk þess sem Akureyrarbær og önnur sveitarfélög í Eyjafirði styðji við verkefnið.
Bæjarráð samþykkti að vísa styrkbeiðninni til velferðarráðs sem mun óska eftir styrkbeiðnum á næstu vikum.