Viðbrögð við stöðunni, samdrætti í framleiðslu en aukinni eftirspurn
mth@vikubladid.is
Byggja nýtt svínabú frá grunni á Sölvastöðum í Eyjafjarðarsveit til að bregðast við aukinni eftirspurn. Húsin um 3.200 fermetrar að stærð. Um 400 gyltur á hverjum tíma.
„Þetta er gríðarlega spennandi verkefni,“ segir Ingvi Stefánsson bóndi í Teigi sem stendur í stórræðum í Eyjafjarðarsveit þar sem hann í samstafi við Kjarnafæði/Norðlenska og Bústópa er að reisa nýtt svínabú sem hann hefur gefið nafnið Sölvastaðir, en það er keypt úr landi Torfna. Tvö hús verða reist á staðnum í allt um 3200 fermetrar að stærð. Um 400 gyltur verða á búinu á hverjum tíma.
„Ætli það sé ekki til marks um hvað ég er skrýtinn að ég hef alltaf átt mér þann draum að byggja upp nýtt svínahús frá grunni,“ segir Ingvi sem er formaður Félags svínabænda og hefur verið viðloðandi greinina um langt árabil. Foreldrar hans hófu svínarækt á Teigi árið 1971 og var fyrsta svínahúsið byggt á jörðinni árið 1974. „Þetta er orðin ansi löng saga í þessari búgrein hjá okkur,“ segir hann.
Aðdragandinn að þessu stóra verkefni er langur, en samstarfsfélögin Kjarnafæði/Norðlenska og Bústólpi eiga hagsmuna að gæta að því að viðhalda framleiðslu á svæðinu. „Það hefur nú hin síðari ár verið samdráttur á svínakjöti á Norðurlandi, en á sama tíma hefur eftirspurn aukist mikið,“ segir hann en margvíslegur ávinningur er af því að halda framleiðslunni innan fjórðungs í stað þess að flytja afurðir um langan veg annars staðar frá.
Framkvæmdum lýkur snemma á næsta ári
Ingvi segir að um þarnæstu áramót, 2024 og 2025 taki gildi auknar kröfur um bættan aðbúnað svína þannig að skynsamlegt þótti að byggja nýtt frá grunni, enda er kostnaður við að breyta eldri húsum til að uppfylla reglur orðinn mjög mikill. „Við tökum þetta í áföngum og fyrst um sinn erum við að byggja gyltuhús með fjórum klefum fyrir fráfærugrísi, þ.e. eldið mun eiga sér stað á öðrum búum á svæðinu,“ segir hann. Ingvi segir áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdum ljúki snemma á næsta ári. Húsin verða tvö, annað fyrir gylturnar og hitt fyrir fóðurblöndun og starfsmannaaðstöðu.
Ganga lengra en reglugerð segir um
Um 400 gyltur verða á búinu á hverjum tíma. Til samanburðar má nefna að um 3000 gyltur eru á landinu öllu. „Eftir að framkvæmdum lýkur fljótlega á næsta ári tekur nokkra mánuði að búa til lífmassa í húsunum til að koma búinu í fulla framleiðslu.
Ingvi segir mikið lagt upp úr því að gripir hafi nægt pláss. „Við göngum sem dæmi lengra en reglur kveða á um varðandi stærð á gotstíum. Reynslan hefur kennt manni að það sem er viðunandi núna verður það ekki eftir einn áratug eða tvo. Svo það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og haft rúmt um gripina.“
Viljum snúa vörn í sókn
Hann segir að vissulega sé árferðið ekki að vinna með þeim sem standi í byggingaframkvæmdum, hátt vaxtastig og mikil verðbólga. „Við finnum vel fyrir því og ég neita því ekki að það koma af og til einstöku andvökunætur þegar mest gengur á. Það bætist svo ofan á að erfitt er að fá gott starfsfólk í svona framkvæmd. Það er eitt og annað sem er vinnur á móti manni. Á móti kemur að við viljum fyrir alla muni snúa vörn í sókn og reyna hvað við getum að verja okkar hlutdeild gagnvart innfluttu svínakjöti,“ segir Ingvi. „Ég hef lengi viðrað þá skoðun mína að ég hafi mikla trú á íslenskum landbúnaði og að það séu mörg sóknarfæri fram undan. Ætli sé ekki kominn tími til að sýna það í verki.“
Þá nefnir Ingvi að það hafi hjálpað til við þá ákvörðun að hefja uppbygginu á nýju svínabúi frá grunni að þriðja kynslóðin hafi áhuga á búrekstrinum, en eldri sonur hans, Tristan Darri og kærastan, Lydía Rós Unnsteinsdóttir hafi bæði nýlokið búfræðinámi og hafi mikinn áhuga fyrir svínarækt.
Hann segir það krefjandi að stunda það sem Evrópusambandið skilgreini sem heimskautalandbúnað en margt annað vinni með íslenskum svínaræktendum. „Hreina vatnið, endurnýjanleg orka ásamt gríðarlega miklu landrými eru miklir kostir sem okkur hættir á stundum til að taka sem sjálfsögðum hlut hér á landi. Kollegar mínir erlendis eru víða að gera margt gott í þessari búgrein en ég sé að á mörgum stöðum eru þeir komnir í verulega þrönga stöðu varðandi landrými og fleira.“
Ingvi hefur sem formaður Félags svínabænda víða farið, fengið tækifæri til að skoða svínabú á erlendri grundu. „Ein minnisstæðasta ferðin var þegar ég fór til Úkraínu fyrir 17 árum síðan og skoðaði svínabú þar í landi. Þar voru 12 þúsund gyltur og búið allt í eigu erlendra fjárfesta, sem sagt þar voru fjórum sinnum fleiri gyltur á einu búi heldur en á öllu Íslandi.“