Verður í meðallagi gott berjaár
„Það vantar svona á að giska viku upp á, þá verða berin tilbúin,“ segir Nataya Sripasong ötul berjatínslukona sem hefur þegar farið um móana í nágrenni Akureyrar til að skoða berjasprettuna.
„Mér sýnist að þetta muni verða í meðallagi gott ár, ég hef oft séð meira af berjum en líka stundum minna,“ segir hún. Fyrstu berin eru þegar komin í hús og þau hefur hún fundið í kringum Þelamörk. „Víðast hvar eru berin ekki alveg fullþroskuð og ekki nægilega góð, það er enn talsvert mikið um grænjaxla sem þurfa nokkra daga til víðbótar.“
Nataya segir að þó maí hafi ekki alltaf verið sérlega hlýr hafi ekki komið næturfrost sem stundum gerist og setur strik í reikning berjasprettunnar. „Það hafa ekki komið upp neinar hörmungar í veðri, þannig að ég held að þegar upp verður staðið í haust að þetta verði í meðallagi gott berjaár,“ segir hún.
Nataya fer víða um Eyjafjörð til berja og alla leið til Dalvíkur og Ólafsfjarðar ef því er að skipta og er ýmist ein að tína að með vinkonum. „Það er yndislegt að vera upp til fjalla að tína ber,“ segir hún. Talsverð eftirspurn er eftir berjum en Nataya hefur selt ber og segir m.a. að eldra fólk sem ekki komist sjálft út í móa sé ánægt að eiga þess kost að fá nýtínd bláber heim á hlað.
Verður í meðallagi gott berjaár
-segir Nataya Sripasong sem segir að viku vanti upp á að berin verði sæt og góð