Verðskrá Norðurorku hækkaði um tæp 5% um mánaðamótin

Mynd á vef Norðurorku
Mynd á vef Norðurorku

Verðskrá Norðurorku hækkaði um 4,9% um nýliðin mánaðamót. Miklar framkvæmdir eru yfirstandandi og fram undan í öllum veitum fyrirtækisins og ljóst er að verðskráin mun áfram litast af þeim, segir á vef félagsins. Norðurorka rekur hitaveitu, vatnsveitu, rafveitu og fráveitu.

Heitavatnsnotkun í samfélaginu hefur aukist mjög mikið og langt umfram fólksfjölgun og henni fylgir stór áskorun varðandir rannsóknir, leit og fjárfestingar. Ekki er fyrir fram ljóst að nýjar sjálfbærar jarðhitaauðlindir séu til reiðu í Eyjafirði og kostnaðurinn við að virkja þær hefur aukist enda sífellt lengra að sækja þær .Undanfarin ár hefur Norðurorka verið í stórum verkefnum til að auka orkumátt hitaveitunnar og flutningsgetu aðveitulagnarinnar frá Hjalteyri. Heildarkostnaður verkefnisins var áætlaður um 2,6 milljarðar króna og  var talið að með framkvæmdinni væri verið að svara þörfum samfélagsins fyrir heitt vatn næstu 15-20 árin. 

Nú hefur komið í ljós að hefja þarf virkjun næsta svæðis, þ.e. jarðhitasvæðisins við Ytri-Haga á Árskógssandi, mun fyrr en áður hafði verið áætlað. Reikna má með að sú fjárfesting verði um 1,5 milljarður á næstu tveimur árum.

Styrkja dreifikerfi rafveitu

Á undanförnum árum hefur mikil endurnýjun átt sér stað í dreifikerfi rafmagns. Meðal annars hefur verið unnið markvisst að spennubreytingum í þeim tilgangi að styrkja dreifikerfið enn frekar til að taka við aukinni notkun s.s. hleðslu rafbíla.Vatnsveita stendur líka frammi fyrir auknum verkefnum, m.a. þarf að leggja aðveitulögn frá Vaðlaheiðargöngum til Akureyrar og lagning dreifikerfis í ný hverfi sem eru að byggjast upp á starfssvæðinu. Hvað fráveitu varðar hefur ný hreinsistöð Norðurorku í Sandgerðisbót sannað gildi sitt, en á liðnu ári voru 37 tonn af rusli síuð úr fráveituvatni sem áður hefðu endað úti í sjó. Gerlamengun við strandlengju Akureyrar hefur minnkað til muna eftir að hreinistöðin var tekin í gagnið.

Nýjast