Velferðarráð: Vilji til að taka þátt - málið í ferli
Elma Eysteinsdóttir formaður Velferðarráðs segir að unnið sé að málum Grófarinnar geðræktar á Akureyri. Grófin geðrækt hefur óskað eftir því að Akureyrarbær undirriti þjónustusamning til að tryggja reksturinn. Minnihlutinn í velferðarráði bókaði þegar málið var til umfjöllunar á dögunum að endurtekið hefði verið reynt að gera þjónustusamning og endurtekið hefði það ekki tekist.
Á fundinum þar sem málið var til umfjöllunar var því vísað til fjárhagsáætlunargerðar „og því fjarri lagi að ekki sé vilji til að gera einhvers konar þjónustusamning við Grófina eða að styðja við starfsemina á annan hátt,“ segir Elma. Hún bendir á að Grófin geðrækt hafi fengið í fyrsta sinn styrk frá Akureyrarbæ nú á þessu fyrsta ári nýs velferðarráðs.
Fyrra velferðarráði var í lófa lagið að gera þjónustusamning við Grófina hafi verið vilji fyrir því. Í bókun minnihlutans kemur fram að við ætlum ekki að standa við stóru orðin en ég veit ekki hvaða stóru orð verið er að tala um. Það er mjög einkennilegt að koma fram með þetta núna og láta eins og við séum ekki að standa okkur, það er verið að vinna að þessu máli og mun þeirri vinnu ljúka í tengslum við fjárhagsáætlunargerð í haust „ segir Elma.
Grófin hefur verið starfrækt á Akureyri frá árinu 2013 og hefur sannað gildi sitt sem mikilvægur vettvangur fyrir fólk sem glímir við geðraskanir. Elma segir að fyrir því sé skilningur innan bæjarstjórnar.
Málið í vinnslu
Elma segir að frá því ljóst var að húsnæði Grófarinnar væri óviðunandi hafi leit hafist að heppilegu húsnæði og bærinn tekið þátt í henni. Eins sé ljós að Lautin sem einnig er úrræði fyrir fólk með geðraskanir og rekið af Akureyrarbæ, sé í óhentugu húsnæði. „Við skoðuðum til að byrja með hvort hægt væri að ná fram samlegðaráhrifum með því að hafa þessi tvö úrræði undir sama þaki en fljótlega kom í ljós að það gengur ekki upp. Starfsemin er það ólík og á ekki samleið,“ segir Elma og bætir við að hvorki hafi gengið né rekið að finna húsnæði.
Hún segir að ekki sé tímabært nú að hrópa á torgum og fara fram með stóryrði. Verið sé að vinna að málum Grófarinnar. „Þetta er í vinnslu, en stundum er það svo þar sem margt er í gangi í einu að sumum finnst ganga hægt að þoka málum áfram. En það er alveg ljóst að við í meirihlutanum höfum vilja til að koma að þessu máli.“