20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Velferðarráð Sjá fram á skerðingu á þjónustu í sumar því ekki fæst starfsfólk
Velferðarráð hefur þungar áhyggjur af þeirri stöðu sem er komin upp varðandi mönnunarvanda stuðningsþjónustu Akureyrarbæjar og sér fram á skerðingu á þjónustu í sumar vegna þess.
Hulda Elma Eysteinsdóttir formaður velferðarráðs segir að ekki hafi gengið vel að ráða fólk í sumarafleysingu á velferðarsviðið og enn vanti þar nokkur stöðugildi til að unnt verði að halda uppi fullnægjandi þjónustu í sumar.
„Vitað er að ástandið er svipað hjá heimahjúkrun, sem hefur óskað eftir að stuðningsþjónusta taki eitthvað af þeim verkefnum vegna skorts á sumarafleysingu,“ segir Hulda Elma. Lokað verður á Kristnesi hluta úr sumri og starfsemi verður verður skert af þeim stöku. Þá standa tvær deildir Heilsuverndar tómar þar sem nauðsynlegar endurbætur eru ekki hafnar. Velferðarráð Akureyrarbæjar hefur skorað á Heilbrigðisráðuneytið að bregðast við því ástandi hið fyrsta.
„Allt þetta saman lagt gerir að verkum að við í velferðarráði höfum miklar áhyggjur af stöðunni. Þetta er erfitt úrlausnar þar sem ekki fæst starfsfólk en ég veit til þess að það er verið að vinna að því á öllum vígstöðvum að leysa vandann og vonandi finnst lausn fyrir sumarið,“ segir hún.