Vekra kaupir Dekkjahöllina

Elín Dögg Gunnars Väljaots, Jón Trausti Ólafsson og Kristdór Gunnarsson. Mynd/Aðsend.
Elín Dögg Gunnars Väljaots, Jón Trausti Ólafsson og Kristdór Gunnarsson. Mynd/Aðsend.

Vekra hefur gengið frá samningi við eigendur Dekkjahallarinnar um kaup á öllu hlutafé félagsins. Kaupin eru þó háð samþykki Samkeppniseftirlitsins sem hefur fengið málið til umfjöllunar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vekra.
 
Dekkjahöllin var stofnuð árið 1982 og er því rúmlega 40 ára gamalt fyrirtæki með höfuðstöðvar á Akureyri. Félagið er innflutningsaðili hjólbarða og eru helstu vörumerki þess Yokohama, Falken, Sonar og Triangle. Félagið rekur 4 starfsstöðvar, á Akureyri, Egilsstöðum og tvær í Reykjavík, í Skútuvogi og í Skeifunni.  Félagið hefur verið fjölskyldufyrirtæki og er fjöldi starfsmanna um 30-40 talsins að jafnaði. Vekra er eignarhaldsfélag og er félagið meðal annars eigandi Bílaumboðsins Öskju sem er umboðsaðili Mercedes-Benz, Kia, Honda og smart, Sleggjunnar sem er sölu- og þjónustuaðili Mercedes-Benz vöru- og hópferðabíla, Lotus sem er bílaleiga og Hentar sem einbeitir sér að langtímaleigu. Ársvelta Vekru var um 25 milljarðar árið 2022 og starfsmenn félagsins ríflega 200 talsins.
 
„Það eru stór tímamót hjá okkur í fjölskyldunni að selja rekstur Dekkjahallarinnar sem pabbi okkar, Gunnar Kristdórsson, stofnaði í bílskúrnum heima hjá okkur árið 1982. Það er þó mjög ánægjulegt að horfa til baka og sjá hve öflugt fyrirtæki honum og fjölskyldu hans hefur tekist að skapa. Nú er þó komið að tímamótum og við sjáum félagið verða samstarfsaðili öflugra fyrirtækja og við erum viss um að Dekkjahöllin verður í góðum höndum til framtíðar hjá Vekru sem hefur byggt upp afar farsæl fyrirtæki  á undanförnum árum og þá horfum við sérstaklega til Öskju sem er þekkt fyrir góða þjónustu. Við Kristdór, bróðir minn munum áfram starfa með nýjum eigendum Dekkjahallarinnar og horfum björtum augum til samstarfsins, ég verð á Akureyri með þeim góða hóp sem hér hefur starfað, og Kristdór mun áfram stýra starfsemi okkar á Egilsstöðum. Gildi Dekkjahallarinnar er góð, fagleg og persónuleg þjónusta og við finnum fyrir ríkum stuðningi nýrra eigenda við að svo verði áfram“, segir Elín Dögg Gunnars Väljaots sem starfar sem fjármálastjóri Dekkjahallarinnar.
 
„Hlutverk okkar í Vekru er að standa vel að baki okkar rekstrarfélögum og ná fram samlegð í rekstri þeirra og um leið að byggja upp góða þjónustu við viðskiptavini með öflugum vörumerkjum. Dekkjahöllin fellur vel að okkar framtíðarsýn. Hjólbarðaþjónusta er órjúfanlegur hluti af bílaviðskiptum og þjónustu og enn frekar til framtíðar þar sem rafbílar eru að taka yfir sem ráðandi orkugjafi. Dekkjahöllin á sér góða sögu um þjónustu og er landsbyggðarfélag sem við kunnum vel að meta. Við horfum því björtum augum til framtíðar og erum þakklát því trausti sem okkur er falið að taka við eignarhaldi félagsins. Stjórnendur þess, sem eru alin upp í Dekkjahöllinni, munu starfa með okkur áfram og við vonumst til að geta lagt þeim lið í að gera gott fyrirtæki enn betra. “Félagið verður áfram með höfuðstöðvar á Akureyri þar sem stærsta starfstöðin er staðsett“, segir Jón Trausti Ólafsson forstjóri Vekru og framkvæmdastjóri Öskju.

Nýjast