Vegagerðin breytir hámarkshraða um Hörgársveit

Vegagerðin lækkar hámarkshraða um Hörgársveit      Mynd  MÞÞ
Vegagerðin lækkar hámarkshraða um Hörgársveit Mynd MÞÞ

„Við fögnum þessu,“ segir Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri í Hörgársveit, en Vegagerðin hefur ákveðið breytingu á hámarkshraða í sveitarfélaginu.

Um er að ræða þjóðveg 1 við Þelamerkurskóla þar sem hámarkshraði verður lækkaður úr 90 kílómetrum niður í 70 kílómetra á klukkustund. Vegakaflinn nær til um 600 metra kafla ofan við skólann.

Við Þelamerkurskóla verður hámarkshraði lækkaður úr 90 km, niður í 70 km. á klst.

Eftir það, í átt að Akureyri verður leyfilegur hámarkshraði 80 km/klst. að Blómsturvallavegi/Hlíðarvegi þar sem hraðinn verður lækkaður niður í 70 km/klst. að Akureyrarbæ. Enn fremur er ákveðið að hámarkshraði á hliðarvegum út frá þjóðvegi 1 á þessum kafla verði lækkaður samhliða þessu.

Lengi barist fyrir þessu

Snorri segir að sveitarfélagið ásamt skólayfirvöldum og foreldrum hafi lengi barist fyrir því að hámarkshraði við Þelamerkurskóla yrði lækkaður í 70 kílómetra. „Nú er það að verða að veruleika og fögnum við því mjög. Við höfum líka skilning á því að vegurinn frá Þelamörk að Blómsturvallavegi/Hlíðarvegi beri ekki nema 80 km. hámarkshraða og hættuleg gatnamót á þessum kafla styðja þá ákvörðun.

Við höfum líka lagt til áður að kaflinn alveg frá Blómsturvallavegi/Hlíðarvegi að Akureyri verði með 70 km. hámarkshraða og fögnum því að svo verði nú,“ segir Snorri.

Nýjast