Framsýn Óskar eftir samtali við þingmenn um áætlunarflug til Húsavíkur

Frá Húsavíkurflugvelli   Mynd Framsyn/Gunnar Jóhannesson
Frá Húsavíkurflugvelli Mynd Framsyn/Gunnar Jóhannesson

Með bréfi til þingmanna Norðausturkjördæmis í dag kallar Framsýn eftir samtali og stuðningi frá þingmönnum kjördæmisins hvað varðar áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur.

„Framsýn stéttarfélag efast ekki um að þingmenn Norðausturkjördæmis hafi góðan skilning á mikilvægi góðra samgangna. Reyndar má halda því fram að öruggar samgöngur sé forsendan fyrir því að byggð haldist í landinu og stuðli jafnframt að því að jafna lífskjör í landinu.

Flugfélagið Ernir hóf að fljúga til Húsavíkur í apríl 2012 í góðu samstarfi við heimamenn allt til Raufarhafnar. Þá höfðu flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur legið niðri í tæp 12 ár. Því miður hætti flugfélagið að fljúga til Húsavíkur á síðasta ári, það er eftir að aðrir eigendur eignuðust meirihluta í flugfélaginu.

Forsvarsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, sveitarfélaga, ríkisstofnana, fyrirtækja, félagasamtaka sem og almennir íbúar hafa kallað eftir öruggum flugsamgöngum inn á svæðið. Flugleiðin var ríkisstyrkt í þrjá mánuði í vetur, eftir að flugið hafði legið niðri í nokkra mánuði á síðasta ári, en Norlandair kom að því að fljúga til Húsavíkur frá desember fram í mars 2025. Í dag liggur flugið niðri og óvíst er um framhaldið enda komi stjórnvöld ekki að því að styrkja flugið frekar með ríkisstyrkjum. Þá gera heimamenn kröfu um að viðhaldsverk á flugbraut og flugstöð á Húsavíkurflugvelli, sem eru á samgönguáætlun, verði unnin sem fyrst enda mikilvægt að mannvirkjum sem tengjast flugsamgöngum um völlinn fái eðlilegt viðhald.

Höfum í huga að fjölmargir þurfa að reiða sig á flugið fyrir utan svokallaða hagsmunaaðila sem nefndir eru hér að ofan, það er allur sá fjöldi sem þarf af heilsufarsástæðum að leita lækninga og sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og treystir á öruggar flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll. Svo ekki sé talað um útgjöldin sem munu stóraukast til framtíðar, ekki síst hjá efnalitlu fólki, verði reglubundnu áætlunarflugi endanlega hætt til Húsavíkur.

Á fundi stjórnar Framsýnar þriðjudaginn 18. mars var formanni félagsins falið að koma skoðunum félagsins á framfæri við þingmenn kjördæmisins. Kallað verði eftir stuðningi þeirra við að tryggja áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur. Þess er vænst að þingmenn svari ákalli Þingeyinga og gangi til liðs við heimamenn í þessu mikilvæga atvinnu- og byggðamáli.

Fulltrúar Framsýnar eru reiðubúnir að funda með þingmönnum og/eða veita þeim frekari upplýsingar verði eftir því leitað enda mikilvægt að þingmenn kjördæmisins séu vel upplýstir um málið. Vonandi sjá þingmenn ástæðu til að setja sig í samband við félagið varðandi þetta mikilvæga mál. Við bíðum við símann enda þolir málið ekki bið.“

Nýjast