Evrópusamstarf eflir skólastarf

Sigurður Bibbi Sigurðarson skrifar
Sigurður Bibbi Sigurðarson skrifar

Leik-, grunn- og framhaldsskólar á Íslandi myndu einangrast frekar hratt ef ekki kæmu reglulega fréttir af erlendum rannsóknum og þróunarverkefnum sem snúa að því að bæta skólastarf. Evrópusamstarf hefur veitt íslenskum skólum og kennurum dýrmæt tækifæri til að kynnast öðrum aðferðum, öðru sjónarhorni og víkka sjóndeildarhring sinn – bæði faglega og menningarlega. 

Ég var svo heppinn í starfi mínu hjá Egilsstaðaskóla og síðar í Síðuskóla á Akureyri að fá tækifæri til að taka þátt í slíku alþjóðlegu samstarfi. Það efldi ekki aðeins faglegan metnað minn sem kennara heldur hafði það líka bein áhrif á nemendur. Þeir lögðu sig meira fram, vissu að jafnaldrar þeirra í öðrum löndum myndu sjá afrakstur vinnu þeirra – og bera hann jafnvel saman við sína eigin. Þessi tenging við umheiminn skiptir máli.

Evrópusamstarf í skólum er ekki ný hugmynd. Skólar hafa unnið saman yfir landamæri í marga áratugi – ef ekki aldir. Með tilkomu Evrópusambandsins varð til formlegt samstarf sem fékk nafnið Comenius, þar sem íslenskir skólar gátu sótt um styrki til nemenda- og starfsmannaskipta sem og samstarfsverkefna. Margir skólar á Akureyri og víðar um landið tóku virkan þátt í Comenius.

Til hliðar við Comenius var þróað verkefni sem hét eTwinning – og það er eTwinning sem hefur haldið áfram að þróast og vaxa til dagsins í dag. eTwinning er rafræn samstarfsvettvangur fyrir skóla, kennara og nemendur innan Evrópu (og víðar), þar sem hægt er að vinna saman að verkefnum – bæði smáum og stórum.

Hvað er hægt að gera í eTwinning?

Eftir að kennari hefur skráð sig inn á eTwinning-vettvanginn opnast aðgangur að aragrúa verkefna sem aðrir kennarar hafa stofnað og eru að leita samstarfsaðila í. Verkefnin geta verið einföld og tímabundin, eins og páskaverkefni, haustverkefni, samanburður á jólasiðum eða jafnvel verkefni tengd veðri, náttúru eða daglegu lífi. Þá senda nemendur sín verkefni, fá verkefni annarra til skoðunar og læra af fjölbreytileika samstarfslandanna.

Það má líka vinna dýpri og flóknari verkefni sem spanna heilt skólaár eða jafnvel fleiri. Dæmi um slíkt eru verkefni þar sem nemendur rannsaka áhrif veðurfars á umhverfi sitt, bera saman rusl sem safnast á ströndum í mismunandi löndum eða greina verð á nauðsynjavörum í samhengi við meðallaun. Þannig fá nemendur tækifæri til að upplifa nám í raunverulegu alþjóðlegu samhengi.

eTwinning er líka tilvalinn vettvangur til að þróa samstarf sem síðar getur orðið að Erasmus+ verkefni. Þegar samstarf hefur gengið vel á rafrænum vettvangi eru góðar líkur á að skólarnir ákveði að stíga næsta skref og sækja um styrki til frekara samstarfs, heimsókna og sameiginlegrar fagþróunar.

Viltu byrja? Við bjóðum þér upp á stuðning!

Sem eTwinning sendiherra á Norðurlandi eystra tek ég reglulega á móti fyrirspurnum frá kennurum og skólastjórnendum sem vilja kynnast eTwinning betur eða fá aðstoð við fyrstu skrefin. Ég kem gjarnan í heimsókn í skóla og aðstoða við skráningu, uppsetningu verkefna eða að finna samstarfsaðila.

Auk þess býður Landskrifstofa eTwinning á Íslandi sem rekin er af Rannís, upp á kynningar og vinnustofur fyrir kennarahópa og skólasamfélög sem vilja kynnast eTwinning nánar. Hægt er að hafa samband (etwinning@rannis.is) og óska eftir heimsókn eða kynningu – hvort sem þið eruð að stíga ykkar fyrstu skref eða eruð þegar farin að vinna að verkefnum.

Hvatning til kennara

Ég vil hvetja alla kennara, hvort sem þeir starfa í leik-, grunn- eða framhaldsskólum, til að kíkja inn á www.etwinning.net, skoða verkefni, stofna eigin eða taka þátt í verkefnum annarra. Þetta opnar nýjar dyr – fyrir þig sem kennara og fyrir nemendur þína.

Og ef þú þarft smá aðstoð við að byrja – ekki hika við að hafa samband!

– Sigurður Freyr (Bibbi), umsjónarkennari við Brekkuskóla og eTwinning sendiherra á Norðurlandi eystra

Nýjast