Lokaorðið Dugnaður er dyggð - Leti er löstur
Frá landnámi hefur vinnusemi verið okkur Íslendingum í blóði borið. Það er meginstef í sjálfum Íslendingasögunum að dugnaður sé dyggð en leti löstur. Það var í sjálfu sér eðlilegt í harðri lífsbaráttu, hvort sem var til sjávar eða sveita. Fólk þurfti að vera að vinna frá morgni til kvölds til að svelta ekki.
Sjálf byrjaði ég í skipaafgreiðslu með afa Hödda á fermingarárinu og hafði gaman af, ég var samt ekki að forða mér frá hungurdauða. Þá vann ég með gaggó í Kjarabót á Húsavík og eftir að við vinkonurnar fórum suður í nám þá dugði ekki að vinna bara í einni vinnu á sumrin, heldur vorum við iðulega með aðra vinnu um kvöld og helgar, ýmist á Hótel Húsavík eða Rækjuvinnslunni. Þetta dugði eitthvað fram á veturinn til greiðslu húsaleigu og uppihald, en auðvitað fengum við líka aðstoð frá foreldrum.
Samfélagsbreytingar
Það hafa orðið gífurlegar samfélagsbreytingar síðustu misserin. Áður fóru margar ungar konur í það mikilvæga verkefni að eignast ungar börn og stofnuðu heimili í stað þess að mennta sig. Á sama tíma unnu flestir karlar langa vinnudaga, hvort sem var til sjós eða lands. Nú er meirihluti nemenda í háskólum landsins konur. Þegar ungt fólk keypti sína fyrstu fasteign var unnið í henni myrkranna á milli og jafnvel flutt inn án gólfefna, hurða og innréttingar. Engum varð meint af.
Er leti kannski vanmetin?
Í dag er mikið talað um kulnun sem er bæði algengt og alvarlegt ástand. Erum við að keyra okkur út, ekki bara í vinnu, heldur ekki síður í dagsins önn? Væri kannski hollt að láta sér stundum leiðast?
Í fréttum í vikunni var fjallað um símabann í einum skólanum og sagði nemandi að það væri gott að vera ekki allan daginn að bera sig saman við aðra á samfélagsmiðlum. Held að unga fólkið okkar tali oft af meira viti en við. Eru það eðlilegar kröfur sem við setjum á okkur sjálf, ala upp börn, vera í fullu starfi, í námi með vinnu, auk þess að vera í allrahanda aukaverkefnum. Taka fullkomnar myndir, af fullkomnum afmælisveislum og fullkomnum fríum, og deila á netinu. Börnin blessuð, þurfa að vera með fulla dagskrá, bæði í skóla og frístundum, við berum auðvitað ábyrgð á því að þeim leiðist ekki andartak. Svo er ekki verra að vera í járnkarlaprógrammi, ganga á 20 fjöll á sumri, hjóla í kringum landið og sitthvað fleira sem fellur til.
Drepast úr dugnaði og ljóma af leti
Svo færast árin yfir og maður fer að meta betur að vera með minna á dagskránni. Nokkuð lausar helgar, svo maður getur smellt sér út í fjallgöngu í nágrenninu ef maður nennir og veðrið er til friðs. Skreppa í heimsókn til ættingja og vina án tilefnis. Í fríum erlendis er fínt að vera ekki með of mikið á dagskrá – spila aðeins af fingrum fram. Jafnvel koma vel úthvíldur úr fríi en ekki örþreyttur eftir ofurskipulag.
Kannski er niðurstaðan bara sú, að allt er best í hófi, bæði dugnaður og leti. Dugnaður er vissulega dyggð og leti löstur. En það virðist vera hægt að drepast úr dugnaði og ljóma af leti.