Vantar húsnæði fyrir fatlaða, en lítið að gerast annað en að biðlistar lengjast
„Við höfum velt því upp hvort það sé eðlilegt að einstaklingur með stuðningsþarfir sé þvingaður til að búa í foreldrahúsum fram yfir þrítugt en á meðan málum er þannig háttað eru foreldrar í ólaunaðri vinnu hjá hinu opinbera við að sinna fullorðnum börnum sínum sem búa heima. Miðað við hvernig hefur gengið undanfarin ár ættu foreldrar kannski að panta sér aukaherbergi á elliheimilinu fyrir fötluðu börnin sín,“ segja þær Sif Sigurðardóttir formaður Þroskahjálpar og Elín Lýðsdóttir gjaldkeri og fyrrverandi formaður. Þær segja Akureyrarbæ ekki standa sig þegar kemur að húsnæðismálum fatlaðra.
Félagið Þroskahjálp varð til árið 1996 við samruna tveggja félaga sem starfandi voru á Akureyri, Styrktarfélagi vangefinna á Norðurlandi og Foreldrafélagi barna með sérþarfir á Akureyri. Megintilgangur Þroskahjálpar er að standa vörð um hagsmuni fatlaðra, stuðla að auknum lífsgæðum þeirra og vinna að úrbótum í málaflokknum. Einnig hefur félagið það að markmiði að vekja athygli almennings á málefnum fatlaðra. Sif og Elín segja að stór hluti starfseminnar felist í því að standa vörð um það sem áunnist hefur í réttindabaráttu fatlaðra ásamt því að fylgja eftir úrbótum í ýmsum málum er varða fatlaða einstaklinga. Nú eru 76 fjölskyldur skráðar í félagið.
Viðhorfsbreyting gagnvart fötluðum stærsti sigurinn
„Að sumu leyti erum við á svipuðum stað og var fyrir 50 árum síðan en á öðrum sviðum hefur okkur fleygt fram, það á til að mynda við um þá viðhorfsbreytingu sem orðið hefur í garð fatlaðra sem nú eru metnir að verðleikum. Það er stærsti sigurinn,“ segir Sif. „Það hefur margt verið gert gott í málefnum fatlaðra, en að sumu leyti erum við þó enn að berjast fyrir sömu málefnum og áður.“
Þær Sif og Elín benda á að húsnæðismálin séu nú sem oftar efst á baugi og þau málefni sem heitast brenni á t.d. foreldrum fatlaðra einstaklinga sem náð hafi 18 ára aldri. Í þeim efnum sé staðan á Akureyri langt í frá nægilega góð. Ekkert hafi gerst í þeim málaflokki frá því íbúðarkjarni var tekin í notkun við Klettaborg árið 2020. Á meðan blása biðlistar út. „Útlitið er alls ekki gott, það eru fyrirhuguð verkefni á þessu sviði en þau hafa tafist og því ekki í sjónmálin alveg á næstunni að boðið verði upp á nýtt húsnæði fyrir fullorðna fatlaða einstaklinga.“
Þær segja að vissulega standi Akureyrarbær sig ágætlega á ýmsum sviðum og starfsmenn bæjarins séu almennt hjálpfúsir og tilbúnir að aðstoða en þeir séu líka að fást við ferkantað kerfi.
Lítið sem ekkert gerst í fjögur ár
Elín og Sif nefna að enginn þjónustukjarni hafi verið tekin í notkun á Akureyri frá árinu 2020, en þó svo að þar hafi verið 6 íbúðir hafi lítið saxast á biðlistana því á svipuðum tíma var tveimur herbergjasambýlum lokað, í Jörvabyggð og Hafnarstræti.
Þær segja að samkvæmt skýrslu sem vinnuhópur á vegum velferðarráðs hafi unnið árið 2021 hafi átt að hefja framkvæmdir við endurbyggingu á Hafnarstræti 16 það sama ár og við nýbyggingu í Nonnahaga árið 2022. „Hvorugt þessarar áforma hefur staðist og í raun er staðan sú að á tímabilinu frá því skýrslan var gerð hefur búsetuúrræðum fækkað vegna lokana, húsnæðið í Hafnarstræti hefur staðið autt í langan tíma á meðan beðið er eftir því að húsið verði endurbyggt sem íbúðarkjarni,“ segir Elín. Þær hafi heyrt frá Akureyrarbæ að húsnæðið í Hafnarstræti eigi að vera tilbúið á árinu 2024, en þá verði liðin fjögur ár frá því síðasti íbúðakjarni var opnaður. „Það má segja að ekkert hafi gerst á þessum fjórum árum annað en að herbergjasambýli í Hafnarstræti var lokað, það er allur glansinn yfir málaflokknum.“
Akureyrarbær sparar á því að fatlaðir séu sem lengt heima
Þær segja að á sama tíma og allt sé stopp og fullorðnir einstaklingar búi heima hjá sér séu foreldrar og forráðamenn að sinna umönnun þeirra launalaust. „Akureyrarbær sparar sér verulegar upphæðir með þessu fyrirkomulagi, að fatlaðir dvelji sem lengst í foreldrahúsum, því lítil sem engin þjónusta er í boði heima nema fyrir fjölfatlaða einstaklinga. Sú binding og umönnunarvinna sem forráðamenn inna af hendi er veruleg þó ekki sé um líkamlega fötlun að ræða,“ segja þær og benda á að umönnunarbætur séu einungis greiddar til 18 ára aldurs en eftir að þeim aldri er náð taki við ólaunuð sjálfboðaliðavinna forráðamanna. Velta megi fyrir sér hvenær foreldravaktinni ljúki, harðfullorðnir foreldrar eru enn að sinna fullorðnum börnum sínum m.a. að versla í matinn.
„Það er réttur fatlaðra fullorðinna einstaklinga að fá búsetuúrræði við hæfi en Akureyrarbær hefur ekki verið að sinna þeim málaflokki nægilega vel þannig að það má segja að húsnæðismálin séu í hálfgerðum ólestri hér í bæ. Þetta er mjög óþægileg staða fyrir alla, óvissan er verst, því enginn veit hvenær hafist verður handa við þau áform sem þó fyrir liggja.
Þær segja æskilegt að stefna bæjarins sé skýr og kerfið gagnsætt þannig að forráðamenn og fatlaðir einstaklingar á biðlistum hefðu skýrari mynd á því hvenær búast mætti við að viðkomandi einstaklingur fái búsetuúrræði við hæfi. „Eins og staðan er núna er það mjög óljóst hvað og hvenær eitthvað er í boði.“
Einstaklingshyggjan komin út í öfgar
Þær benda á að fatlaðir séu ólíkir og hafi mismunandi þarfir og langanir, en kerfið í kringum málaflokkinn virðist setja alla undir einn og sama hattinn. Sjálfstæð búseta, þar sem hver og einn býr í lítill íbúð í þjónustukjarna sem rúmar 5 til 6 einstaklinga. Hver og einn eldar sjálfur og fær aðstoð sem í sumum tilvikum má ekki taka lengri tíma hjá hverjum og einum en 20 mínútur. „Þetta er orðið mjög ferkantað og öllum troðið inn í sama mótið, burtséð frá því hvernig fólkið er. Það eru til einstaklingar sem vilja vera einir og líka aðrir sem eru meiri félagsverur og myndu virka vel í húsnæði með öðrum á svipuðu róli. En það er ekki í tísku um þessar mundir. Þá höfum við líka bent á að hægt væri að fara aðrar leiðir og þeir séu til sem hefðu ráð á að kaupa íbúð sjálfir eða fara inn í kaupréttarkerfi, en því miður er eins og aðrar og nýjar hugmyndir séu skotnar í kaf. Við höfum á tilfinningunni að sumt í þessum málaflokki sé komið út í öfgar,“ segja þær Sif og Elín.
Foreldrar fatlaðra séu í sífelldri baráttu við kerfið og það dragi úr þeim alla orku. „Það er því miður býsna algengt að foreldrar barna með fötlun og eða langveikra barna fari í kulnun og örmögnun. Það er í raun nægur pakki að fást við að eiga fatlað barn, en stöðug barátta til viðbótar við kerfið tekur vel á. Það getur hægt og rólega dregið úr manni allan mátt.“