Vængjalaus ný bók eftir Árna Árnason komin út
Út er komin bókin Vængjalaus eftir Árna Árnason en það er Bjartur sem gefur bókina út. Þetta er þriðja skáldverkið sem Árni sendir frá sér en hið fyrsta sem ætlað er fullorðnum.
Vefurinn tók Árna tali vegna útkomu bókar hans.
Árrni ný bók og kemur út i ágúst það er óvenjulegt, hvernig það kom til?
Við ákváðum að gefa þessa bók út í ágúst, aðallega þar sem það má segja að það sé svolítið síðsumar í henni. Mér finnst útgáfa bóka yfir sumartímann aðeins hafa aukist undanfarin ár og er það vel, enda á bókamarkaðurinn að vera lifandi allt árið.
Hvað viltu segja okkur um bókina?
Vængjalaus er þriðja skáldverkið sem ég gef út og fyrsta skáldsagan fyrir fullorðna. Sagan gerist á tveimur tímabilum. Við hittum aðalsöguhetjuna, Baldur, fyrst þegar hann er rúmlega tvítugur, sumarið 1996 á Akureyri. Kvöld eitt hittir hann fyrir tilviljun hana Auði sem er ellefu árum eldri og sá fundur á eftir að hafa mikil áhrif á líf þeirra beggja. Rúmum tveimur áratugum síðar stendur Baldur á krossgötum og ákveður að leggja upp í ferð á vit óvissunnar og fortíðarinnar en ekki síður til að horfast í augu við sjálfan sig.
Árni þú hefur líka skrifað smásögur, er annað formið meira heillandi en hitt?
Ég hef einnig gert svolítið af því að skrifa smásögur sem einhverjar hafa birst á prenti. Mér finnst það form af heillandi líka og þar eru lögmálin svolítið önnur, söguramminn oft þrengri og beinskeyttari. Ég skrifa alltaf eina og eina smásögu, einhvern tímann verð ég vonandi kominn með gott safn sem hentar til útgáfu.
Hvernig tilfinning fylgir þvi að senda frá sér bók?
Það er alltaf hnútur í maganum og stress þegar maður sendir frá sér verk, ég held að það muni seint breytast. Maður leggur hjarta og sál í eitthvað verkefni en verður svo auðvitað á endanum bara að vona að lesendum líki það sem maður hefur að segja. Á sama hátt þá kveður maður að stóru leyti verk þegar maður sendi það frá sér og fer að hugsa um það næsta. Næstu bækur eru komnar á teikniborðið, það eru tvær til þrjár hugmyndir að svamla um og við sjáum til hver þeirra verður ofan á. En fyrsta verk er að fylgja Vængjalaus úr hlaði á sómasamlegan hátt.
Það var auðvitað mjög gaman að skrifa sögu sem gerist að stóru leyti á æskuslóðunum fyrir norðan, detta í nostalgíuna með öllu sem henni fylgir. Í því ljósi fannst mér rétt að halda útgáfuhóf á Akureyri. Ég verð í Pennanum – Eymundsson klukkan 17 á fimmtudaginn og þangað eru auðvitað öll velkomin.
Ég hlakka mikið til.