13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Úrskurður um samruna Norðlenska og Kjarnafæðis gæti tafist
Eigendur Kjarnafæðis og Norðlenska komust að samkomulagi um helstu skilmála samruna félaganna síðast liðið sumar. Kjarnafæði er í eigu bræðranna Eiðs og Hreins Gunnlaugssona, en Norðlenska er í eigu Búsældar, sem er í eigu um 500 bænda á Íslandi.
Með samruna félaganna eru eigendur að bregðast við breytingum í rekstrarumhverfi matvælaiðnaðar undanfarin misseri. Það er mat eigenda félaganna að sameinað félag sé betur í stakk búið til að veita viðskiptavinum sínum og birgjum, ekki síst bændum, góða þjónustu á samkeppnishæfu verði.
Kjarnafæði og Norðlenska hafa átt í viðræðum um samruna frá því á haustmánuðum 2018. Hluthafafundur Búsældar, félagsins sem heldur utan um eignarhald fimm hundruð bænda á Norðlenska, samþykkti samrunann í ágúst sl. og hefur málið verið í skoðun hjá Samkeppniseftirlitinu síðan.
Gert var ráð fyrir lokaúrskurði Samkeppniseftirlitsins þann 19. febrúar nk. en að sögn Ágústs Torfa Haukssonar, framkvæmdastóra Norðlenska gæti það dregist eitthvað.
„Þetta er í ferli hjá samkeppnisyfirvöldum. Eigendur félaganna eru búnir að klára alla samninga sín á milli og þetta er í umsagnarferli hjá samkeppnisyfirvöldum og eðlilega eru aðilar í miklum samskiptum. Við fundum með þeim reglulega eins og gengur í slíku ferli en það er ekki kominn endanlegur úrskurður.
Ágúst segir jafnframt að það séu fjölmörg dæmi um að við sambærilega samruna að samkeppnisyfirvöld eða samrunaaðilar óski eftir framlengingum. „Það er ekki útséð með það enn þá en það gæti alveg tognað úr þessu um 2-3 vikur í viðbót, þannig er staðan. Það er alveg greinilegt að samkeppnisyfirvöld eru að skoða þetta mjög vel enda snertir samruninn neytendamarkað sem er stærsti markaður á landinu. Þetta snertir líka bændur sem eru skilgreindir sem neytendur í þessu samhengi, það er eðlilegt að þetta sé skoðað vel og málið er í ferli,“ segir Ágúst Torfi í samtali við Vikublaðið.