Úrbætur eru ótvírætt viðfangsefni ríksins
Greint hefur verið frá því að mygla hafi fundist í húsnæði hjúkrunarheimilisins Hlíðar við Austurbyggð. Akureyrarbær á hluta af fasteignum Hlíðar en sveitarfélagið er nú í þeirri stöðu að ríkið hefur lánað húsin til þriðja aðila, þ.e.a.s. einkafyrirtækisins Heilsuverndar, og fær Akureyrarbær enga leigu greidda, hvorki frá ríki né fyrirtækinu sem nýtir húsnæðið. Óskað hefur verið eftir því að leyst verði úr þessari stöðu sem fyrst með því að ríkið kaupi hlut Akureyrarbæjar í fasteignunum en engin niðurstaða hefur fengist í það mál. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Ríkinu ber lögum samkvæmt að reka hjúkrunarheimili í landinu en Akureyrarbær annaðist um margra ára skeið þann rekstur sem reynslusveitarfélag. Snemma árs 2021 var rekstrinum skilað aftur til ríkisins enda hafði hallarekstur aukist ár frá ári og nam 537 milljónum króna síðasta heila starfsárið sem var 2020. Síðan hafa fasteignir hjúkrunarheimilisins Hlíðar verið nýttar af þriðja aðila og sem áður segir án þess að nokkrar leigugreiðslur til Akureyrarbæjar séu reiddar af hendi.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir að lengi hafi verið vitað að ástand elstu bygginganna við Hlíð kalli á viðhald. „Nú eru komnar fram vísbendingar um að raki sé á tilteknum stöðum og húsnæðið ekki heilsusamlegt. Það var því miður ekki forsvaranlegt að sveitarfélagið ræki áfram hjúkrunarheimili í bænum með hundruð milljóna króna halla. Við skiluðum því rekstrinum aftur til ríkisins og ríkið samdi við Heilsuvernd. Akureyrarbær er ekki í neinu samningssambandi við Heilsuvernd en úrbætur á húsnæðinu, hvort heldur sem er viðgerðir eða nýbyggingar, hljóta ótvírætt að vera viðfangsefni ríkisins,“ segir Ásthildur.