20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Ungskáld ársins krýnd
Í gær var tilkynnt um úrslit í ritlistarsamkeppninni UNGSKÁLD 2016, þar sem ungt fólk á aldrinum 16-25 ára á Eyþingssvæðinu átti þess kost að senda inn texta og hlutu þrjú bestu verkin peningarverðlaun.
Niðurstaða dómnefndar sem í sátu Birna Pétursdóttir fjölmiðlakona og leikstjóri, Arnar Már Arngrímsson rithöfundur og framhaldsskólanemi ograpparinn og listamaðurinn Kött Grá Pjé var eftirfarandi: Karólína Rós Ólafsdóttir var í 1. sæti, Dagbjört Katrín Jónsdóttir í 2. sæti og Hanna Rún Hilmarsdóttir í 3. sæti.
Verðlaunahafarnir fá peningarverðlaun sem eru alls 100 þúsund krónur. Alls bárust 45 textar í samkeppnina frá 35 einstaklingum. Við athöfnina flutti Arnar Már hugvekju um ritlist, Kött Grá Pjé las upp úr nýútkominni bók sinni "Perurnar í íbúðinni minni" og Tumi Hrannar Pálmason og Hekla Liv Maríasdóttir nemendur úr Menntaskólanum á Akureyri fluttu tónlist. Að athöfn lokinni var boðið upp á kakó og jólamákökur.
Þetta er í fjórða skipti sem Ungskáldasamkeppnin er haldin en henni er verkefnastýrt af hálfu Amtsbókasafnsins, Akureyrarstofu, Hússins ungmenna- og möguleikamiðstöðar, Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri. Það er Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra sem hefur styrkt verkefnið frá upphafi en einnig hefur Menningarfélagið Hraun í Öxnadal og Skáldahúsin á Akureyri komið að samkeppninni annarsvegar með bókagjöfum og hinsvegar með útgáfu á verðlaunaverkunum.