Umferðartakmarkanir í tengslum við N1 mótið

N1-mótið verður haldið á Akureyri dagana 29. júní – 2. júlí og von er á um 2.000 þátttakendum frá 41 félagi víðsvegar um landið sem mynda alls 200 lið. Það verður því líf og fjör í bænum eins og greint er frá á heimasíðu Akureyrarbæjar. Til að fjölga bílastæðum og til að tryggja um leið öryggi gesta verða settar á takmarkanir á umferð í kringum íþróttasvæði KA eins og sjá má á meðfylgjandi mynd:

  • Hámarkshraði á Þingvallastræti frá gangbrautarljósum við Hrísalund og niður að Mýrarvegi verður lækkaður í 30 km/klst og umferð takmörkuð við eina akrein í hvora átt í stað tveggja eins og nú er. Heimilt verður að leggja bílum samsíða á akreinunum sem lokað verður.
  • Einstefna verður á Dalsbraut frá KA-heimilinu og til suðurs að hringtorgi við Skógarlund og akreinin á móti verður lokuð en heimilt verður að leggja bílum samsíða á henni.
  • Bent er á bílastæði við Verkmenntaskólann en þangað er aðeins um 11 mínútna gangur, og á bílastæði við Icelandair hotel og við Íþróttahöllina en þangað er aðeins um 7-9 mínútna gangur.
  • Loks eru gestir hvattir til að nýta ókeypis strætó á Akureyri eins og kostur er.

Pollamót Þórs fer jafnframt fram um helgina en þar koma saman kempur kvenna og karla í eldri kantinum sem rifja upp gamla knattspyrnutakta. Þar stefnir í fjölmennasta mót frá upphafi og verða keppendur um 750 talsins og keppendur í kvennaliðum hafa aldrei verið fleiri.

Nýjast