13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Um 70 tonn af olíu og fitu safnast á hverju ári
Um 70 tonn af olíu og fitu safnast árlega á Eyjafjarðarsvæðinu í gegnum fitusöfnunarkerfi sem Akureyrarbær, Norðurorka, Orkey og Terra hafa byggt upp. Græn trekt hefur verið í boði á Akureyri frá því síðla árs 2015 og fjölgar sífellt heimilinum í bænum og á svæðinu öllu sem safna þeirri úrgangsolíu sem til fellur og skila í réttan farveg í gengum kerfið. Desember er sá mánuður þegar mest fellur til af úrgangsolíu.
Undanfarin ár hafa heimilin á svæðinu safnað og skilað inn um 6 tonnum af úrgangolíu og fitu á ári. Veitingahús og mötuneyti skila um tífalt meira magni eða um 60 tonnum árlega, þannig safnast nær 70 tonn af olíu og fitu árlega. Guðmundur Sigurðsson framkvæmdastjóri Vistorku segir að árangur þessa verkefnis góðan og ávinningurinn mikill. „Það má líta svo á að hver og einn sem safnar olíu og fitu á sínu heimili og skilar í réttan farveg sé eigin olíuframleiðandi,“ segir hann en einn lítri af olíu sem skilað er inn verður með íblöndun metanols að einum lítra að lífdísil.
Magnið mest í desember
Nú í desember fellur óvenjumikið af þessu hráefni til þegar landsmenn steikja ókjörin öll af laufabrauði, soðnu brauði og kleinum til viðbótar við allt hangikjötið og steikurnar sem boðið er upp á. „Það fellur til mun meira af steikarolíu, tólg og fitu á heimilum landsins en í öðrum mánuðum ársins og ekki úr vegi að minna fólk á mikilvægi þess að safna þessu saman og skila inn fremur en skola niður í vaskinn,“ segir Guðmundur.