6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Um 60% aukning þátttakenda í fjallahlaupinu Súlur Vertical
Umtalsvert fleiri þátttakendur hafa skráð sig í fjallahlaupið 66°NorðurSúlur Vertical, en skráningu lauk á miðnætti miðnætti 26. Júlí. Heildarfjöldi þátttakenda er 556 manns. Flestir eru skráðir í 18km hlaupið eða 371. Í 28km hlaupið er 141 skráður og 44 í lengstu vegalengdina, 55km ultra. Þetta er umtalsverð aukning í öllum vegalengdum. Í fyrrasumar tóku samtals 340 þátt í öllum vegalengdum og nemur aukningin því ríflega 60% ef miðað er við þá sem hlupu í fyrra samanborið við skráningar í ár.
Súlur Vertical 2021 tókst afar vel í alla staði, en það var í fyrsta sinn sem hlaupið var haldið með þessum hætti, meiri umgjörð en áður og með nýrri 55km leið. Veðrið lék við keppendur og gesti allan daginn og var mikil ánægja með framkvæmdina, jafnvel þótt hlaupið hafi verið haldið í skugga Covid-19 og með ýmsum takmörkunum.
Hæstánægð með þátttökuna
“Þessi fína skráning í ár kom okkur því ekki beinlínis á óvart, miðað við hversu vel gekk í fyrra. En við erum hæstánægð með þátttökuna, ekki síst í ljósi þess að skráning í marga sambærilegra viðburði hefur verið ívið lakari í sumar en í fyrra, enda er framboðið alltaf að aukast og aðstæður í ár allt aðrar, t.d. miklu fleiri sem verja sumrinu erlendis. Þetta er heilbrigð og viðráðanleg aukning hjá okkur í ár og við lítum svo á að Súlur Vertical sé að festa sig almennilega í sessi sem eitt af stærstu utanvegahlaupum landsins, en við stefnum auðvitað enn hærra á næstu árum. Fyrst og fremst hlökkum við til að taka á móti öllum þessum hlaupurum sem eru skráðir í ár og eiga saman frábæran laugardag,” segir Þorbergur Ingi Jónsson fjallahlaupari og formaður Súlur Vertical.
Nú verður í fyrsta sinn boðið upp á nýja hliðarviðburði, en Krakkahlaup Súlur Vertical verður haldið í Kjarnaskógi á morgun og Menningarskokk Súlur Vertical þar sem listamaðurinn Villi Bergmann stýrir skemmtiskokki með leiðsögn um menningarbæinn Akureyri.