Um 50 manns söfnuðu 1,5 milljónum birkifræja við upphaf átaks í Garðsárreit
Landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í söfnun á birkifræi hófst formlega í Garðsárreit í Eyjafjarðarsveit í liðinni viku. Um fimmtíu manns, fólk á öllum aldri, kom til að tína fræ og njóta útiveru í skóginum. Alls safnaðist um ein og hálf milljón birkifræja í góðri stemmningu og góðu haustveðri. Boðið var upp á ketilkaffi, safa og kleinur á eftir.
Átakið fer nú fram í þriðja sinn í samvinnu við fyrirtæki, félög og einstaklinga um allt land. Með átakinu vilja Skógræktin og Landgræðslan virkja landsmenn til þátttöku í því markmiði stjórnvalda að breiða birkiskóglendi út á fimm prósent landsins fyrir 2030 en núverandi útbreiðsla er 1,5%.
Síðustu birkiskógarleifarnar í Eyjafirði
Fram kemur á vef Skógaræktarfélags Íslands að mikilvægt sé að ná góðu sambandi við ýmis félög um allt land, ekki síst skógræktarfélögin sem eru um 60 talsins með um 8 þúsund félagsmenn. Því hafi verið við hæfi að Skógræktarfélag Eyfirðinga riði á vaðið og byði fólki til fræsöfnunar í einum reita sinna. Fyrir valinu varð Garðsárreitur í Eyjafjarðarsveit sem einmitt var fyrsti starfsvettvangur félagsins eftir stofnun þess árið 1930. Þar voru einar síðustu birkiskógaleifar í gervöllum Eyjafirði sem félagið tók að sér að friða og breiða út.
Kristinn H. Þorsteinsson, verkefnastjóri fræsöfnunarátaksins, fræddi fólk um birki, söfnun á birkifræi, meðhöndlun á fræinu og sýndi líka hvernig sá má fræinu í potta og rækta eigin plöntur.